Erlent

Fordæmir ákall Blair eftir nýrri Brexit atkvæðagreiðslu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
May sagði ummælin óvirðingu við embættið sem hann gegndi
May sagði ummælin óvirðingu við embættið sem hann gegndi Getty
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands er harðorð í garð Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra landsins vegna ummæla hans um nýja Brexit atkvæðagreiðslu. Hún segir Blair grafa undan Brexit viðræðum með því að kalla eftir annarri atkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Blair sagði að þingmenn myndu styðja nýja atkvæðagreiðslu ef enginn annar kostur væri í stöðunni.

May sagði ummælin óvirðingu við embættið sem hann gegndi eitt sinn og sagði að þingmenn gætu ekki fríað sig þeirri ábyrgð að fylgja Brexit eftir.

Ummæli Blair féllu eftir að tíu þingmenn verkamannaflokksins fóru á fund David Lidington, fyrrverandi evrópumálaráðherra, til að ræða nýja atkvæðagreiðslu.

Ekki eru þó allir þingmenn verkamannaflokksins hlynntir annarri atkvæðagreiðslu. Ríkisstjórn Theresu May er á móti öllum slíkum hugmyndum og segir að almenningur hafi gefið skýr skilaboð þegar kosið var með Brexit með 51,9 prósentum atkvæða.

Chris Mason, stjórnmálarýnandi Breska ríkisútvarpsins segir mikla reiði einkenna ummæli May í garð Blair.

„Að Tony Blair fari til Brussel og reyni að grafa undan samningaviðræðum okkar og tali fyrir annarri atkvæðagreiðslu er óvirðing við embættið sem hann gegndi einu sinni og fólkið sem hann vann fyrir,“ sagði May.

Til stóð að þingmenn myndu greiða atkvæði um Brexit samning May síðastliðinn þriðjudag en því var frestað eftir að May viðurkenndi að samningurinn hefði verið felldur með miklum meirihluta. Í kjölfar þess fór May til Brussel og bað um að breytingar yrðu gerðar á samningnum svo hann yrði samþykktur en kom tómhent heim frá þeim viðræðum sömuleiðis.


Tengdar fréttir

May snýr tómhent heim frá Brussel

Breska forsætisráðherranum tókst ekki að fá neitt upp úr fulltrúum ESB sem gæti sannfært breska þingmenn til að greiða útgöngusamningi hennar atkvæði sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×