Ekkert er til í fréttum þess efnis að hamborgarkeðjan McDonald's hafi í hyggju að opna útibú hér á Íslandi, að sögn talsmanns fyrirtæksins í Bretlandi.
Íslenskir fjölmiðlar gerðu sér mat úr því í gær að blaðamaður New York Post héldi því fram að svo væri. Það stæði hreinlega til að opna fjölda útibúa á Íslandi. Upplýsingarnar voru ekki hafðar eftir neinum en voru settar í samhengi við vöxt í ferðamennsku og að fjárfestar horfi hýru auga til klakans.
Sjá einnig: Segja McDonald's á leiðinni til Íslands
Vísir sendi fyrirspurn á hamborgarakeðjuna vegna málsins og það stóð ekki á svörum. Nei, Íslendingar þurfa að bíða eitthvað lengur eftir því að gylltu bogarnir skjóti upp kollinum hér á landi. Hamborgararisinn hefur alls engin áform um að opna útibú á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð.
„Hjá McDonalds metum við og greinum þær viðskiptalegu- og efnahagslegu forsendur sem eru til staðar við mat á því hvort opna eigi veitingastað á nýju markaðssvæði. Á þessari stundu höfum við engin áform um að opna veitingastað á Íslandi,“ er haft eftir talsmanni McDonald's í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.
Ekki er veitt nánari útskýring á þessum forsendum í svari McDonald's. Því er ekki hægt að fullyrða um hvort það sé fámennið, ástand þjóðarbúsins eða eitthvað annað sem stendur í risanum.
McDonald's hafði á sínum tíma fjögur útibú á Íslandi en því síðasta var lokað árið 2009.
