Viðskipti innlent

Sekt fjölmiðlanefndar á 365 vegna Glamour stendur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. vísir/hanna
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað fjölmiðlanefnd af kröfu fjölmiðlafyrirtækisins 365 um að ógilda skyldi stjórnvaldssekt nefndarinnar á hendur fyrirtækinu vegna áfengisauglýsinga sem birtust í þremur tölublöðum tímaritsins Glamour haustið 2016.

Fjölmiðlanefnd taldi að 365 hefði brotið gegn lögum um fjölmiðla þar sem kemur fram að óheimilt sé að auglýsa áfengi og tóbak. Þar af leiðandi var fyrirtækið sektað um eina milljón króna.

Þessu hafnaði 365 þar sem fyrirtækið taldi að skort hefði heimild fyrir ákvörðun nefndarinnar þar sem Glamour hafi á þessum tíma verið gefið út af bresku dótturfyrirtæki 365. Því hafi fjölmiðlanefndin farið út fyrir valdsvið sitt.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að fjölmiðlanefnd hafi hins vegar talið að tímaritið Glamour félli undir íslenska lögsögu þar sem það væri ætlað almenningi hér á landi.

Á þetta fellst héraðsdómur þar sem hann metur það sem svo að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar beri með sér að 365 hafi starfrækt Glamour áfram og ekki hafið orðið raunverulegar breytingar í þeim efnum eftir að breska dótturfélagið var skráð útgefandi árið 2015.

Fjölmiðlanefnd hafi því réttilega sektað 365 vegna áfengisauglýsinganna og sýknaði héraðsdómur því nefndina af kröfum fyrirtækisins. Einnar milljóna króna sektin stendur því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×