Vegna óhagstæðrar veðurspár telur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands rétt að íbúar í nágrenni við Kirkjuveg 18 sem brann í fyrradag með þeim afleiðingum að tveir létust, hafi glugga á húsnæði sínu lokaða og að gangandi umferð verði sem minnst um nágrennið á meðan lóðin hefur ekki verið hreinsuð.
Eru þessar ráðleggingar settar fram í öryggisskyni í ljósi þess sem áður hefur komið fram um asbest í klæðningu hússins og önnur efni sem geta farið af stað ef vind hreyfir að ráði.
Tilkynnt var um eldsvoðann að Kirkjuvegi 18 síðdegis á miðvikudag. Rannsókn lögreglu á vettvangi lauk í gær og húsið var í kjölfarið afhent viðeigandi tryggingafélagi. Gert er ráð fyrir að húsið verði rifið, sem gæti reynst erfitt verkefni sökum þess hversu mikið asbest var í því. Karl og kona hafa verið úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald í Héraðsdómi Suðurlands í gær vegna eldsvoðans.
