Farþegi sem Vísir ræddi við og vill ekki koma fram undir nafni segist hafa velt því fyrir sér með ferðafélögum sínum hvort þetta yrði hans síðasta stund. Áfallateymi var í Keflavík þegar vélinni var lent þar. Útskýrði flugstjórinn fyrir farþegum að vélin hefði ekki náð í nógu mikla hæð til að komast upp fyrir vonda veðrið.
Annar farþegi, sem glímir við mikla flughræðslu og tekur róandi lyf fyrir flug, segir flugstjóranum og áhöfn að þakka að fólk hafi ekki farið verr út úr ferðalaginu en raun bar. Flugstjórinn hafi verið yndislegur, róað fólkið niður með því að árétta ítrekað að þótt flugið virkaði ógnvekjandi þá hefðu þeir fulla stjórn á vélinni.
Eftir rúma klukkustund náði flugvélin réttri hæð og ókyrrðin minnkaði.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir í samtali við Vísi að mikil ókyrrð hafi verið á leiðinni til Íslands.
„Það skapar auðvitað vanlíðan og ótta,“ segir Guðjón.
Áfallateymi var tilbúið í Keflavík þegar vélin lenti þar um klukkan 15:50. Óskað var eftir aðstoð fyrir fjóra farþega sem voru í áfalli eftir flugið.
Uppfært klukkan 14:27 með myndbandinu að neðan og upplýsingum frá öðrum farþega vélarinnar.