Sport

Strákarnir úr leik í Katar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valgarð á EM í sumar
Valgarð á EM í sumar vísir/getty
Íslensku karlkeppendurnir hafa lokið keppni á HM í áhaldafimleikum. Valgarð Reinhardsson náði bestum árangri íslensku strákanna.

Valgarð komst fyrstur Íslendinga í úrslit á EM í sumar með frábærum árangri í stökki en hann náði ekki að fylgja því eftir í dag. Hann fékk 13,316 í einkunn fyrir stökkin sín sem skilaði honum í 12. sæti eftir fyrri dag undanúrslitanna í karlaflokki.

Í fjölþrautinni var hann samtals með 69,198 stig á áhöldunum sex.

„Það fór eiginlega bara allt úrskeiðis,“ sagði Valgarð í viðtali við Fimleikasamband Íslands eftir að hann lauk keppni.

„Ég réð engan veginn við hitann sem er hérna og var bara ekki alveg tilbúinn fyrir þetta.“

Eyþór Baldursson fékk 66,031 í heildareinkunn. Hans besta áhald var bogahesturinn þar sem hann var í 59. sæti.

„Það gekk ekkert almennilega upp. Við erum smá svekktir en svona er þetta sport og maður verður bara að halda áfram,“ sagði Eyþór að keppni lokinni. „Gólfið byrjaði illa hjá mér og síðan vorum við bara ekki að hitta á það sem við vildum hitta á.“

Jón Gunnarsson var að glíma við meiðsli í baki og keppti því aðeins á þremur áhöldum. Hann fékk 9,733 á bogahesti, 11,000 á svifrá og 12,700 á hringjunum sem voru jafnframt hans besta áhald. Þar lenti hann í 39. sæti

„Gaman að hafa klárað þetta og engin föll hjá mér í dag. Hnökrar hér og þar en ekkert stórmál,“ sagði Jón.

Þar sem Jón keppti ekki á öllum áhöldum telja stig íslensku strákanna ekki í liðakeppninni, þar eru þrjár bestu einkunnir liðsins á hverju áhaldi taldar saman.

Kvennalið Íslands hefur leik á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×