Enski boltinn

Einar Árni: Hrun í anda 2007

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Einar Árni Jóhannsson.
Einar Árni Jóhannsson. vísir/anton
„Úff, eigum við tíma í þetta?“ spurði Einar Árni Jóhannsson þegar hann var spurður hvað hafi farið úrskeiðis hjá hans mönnum í kvöld. „Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.“

Njarðvík tapaði 95-73 á Sauðárkróki og hefði tapið hæglega getað verið verra nema fyrir þær sakir að Tindastóll lagði mun minna púður í varnarleikinn í seinni hálfleik.

„Fyrstu tvær mínúturnar voru fínar, við hlupum sóknarleik og vorum að verjast ágætlega. En eftir það var bara hrun í anda 2007. Algjört hrun og rúmlega skellum á botninum.“

„Spilum líklega 18 lélegustu mínútur sem ég hef tekið þátt í á mínum ferli. Það er svo margt sem hægt er að tína til. Einbeiting, þor, kraftur, boltahindrunavarnarleikur, frákstabarátta, ég veit ekki hvar ég á að tæma þetta.“

Hvað getur hann gert til þess að bæta leik Njarðvíkur? „Ég held að það byrji bara í hugarfari.“

„Mér fannst við ótrúlega litlir í okkur. Við vorum 15 sem að féllum allir á prófinu, það er bara þannig.“

„Við vitum að við erum að spila á sterkum velli á Sauðárkróki en það þarf ekkert að koma á óvart. Það sem truflaði mig mikið er að við erum engin fyrirstaða í varnarleiknum í fyrri hálfleik og erum í raun búnir að kasta þessum leik frá okkur eftir fyrstu tuttugu mínúturnar,“ sagði Einar Árni Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×