Innlent

„Við vorum mætt fyrir klukkan hálf átta“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Vísir/Vilhelm
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn og formaður stýrihóps um framtíð og eflingu íbúasamráðs Reykjavíkurborgar, segir það ekki rétt að fulltrúar hópsins hafi mætt of seint á boðaðan fund hópsins í Dalskóla í Úlfarsárdal í kvöld.

„Við vorum mætt fyrir klukkan hálf átta,“ segir Dóra Björt í samtali við Vísi en fundurinn átti að hefjast þá. Boðað hafði verið til fundarins fyrir íbúa Grafarvogs, Grafarholts og Úlfarsárdals en þegar fundargesti bar að garði var skólinn harðlæstur.Varaformaður íbúasamtaka Grafarvogs sagði í samtali við Vísi í kvöldað Dóra Björt og aðrir nefndarmenn hafi mætt um klukkan átta, hálftíma eftir að fundurinn átti að hefjast.

Þetta segir Dóra hins vegar að geti ekki staðist þar sem fundurinn hafi verið hafinn klukkan tíu mínútur í átta. Ástæðuna fyrir því að fundurinn hófst ekki á réttum tíma megi rekja til veikinda hjá starfsmanni skólans.

„Það sem gerðist þarna í þessum skóla að við vorum búin að bóka þarna rými. Manneskjan sem átti að hleypa okkur inn var veik og skólastjórinn gleymdi að láta okkur vita,“ segir Dóra.

Því hafi hún, ásamt öðrum fulltrúum hópsins sem mættir voru, gengið marga hringi í kringum skólann til þess að reyna að finna hvar þau gætu haldið fundinn. Það hafi tekist að lokum.

„Fundurinn fór fram og við áttum þarna gott spjall við íbúa hverfisins,“ segir Dóra sem segir að ekki sé rétt að stór hópur þeirra sem hafi ætlað sér að mæta á fundinn hafi látið sig hverfa vegna þess hversu seint hann hófst.

Fulltrúarnir hafi hins vegar ákveðið að halda annan fund fyrir íbúa hverfisins sem létu sig hverfa, svo þeir gætu tekið þátt í starfi hópsins.

Í stýrihópnum sitja auk Dóru Bjartar, Þorkell Heiðarsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, Örn Þórðarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.





Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×