Bíó og sjónvarp

Sagðir ætla að skrifa Apu út úr þáttunum

Atli Ísleifsson skrifar
Apu Nahasapeemapetilon er eigandi verslunarinnar Kwik-E-Mart í bænum Springfield.
Apu Nahasapeemapetilon er eigandi verslunarinnar Kwik-E-Mart í bænum Springfield. Getty/Fox
Aðstandendur sjónvarpsþáttanna langlífu um Simpson-fjölskylduna hafa sætt mikilli gagnrýni síðustu misserin vegna búðareigandans Apu í þáttunum. Nú virðist sem að til standi að skrifa Apu alfarið út úr þáttunum.

Apu Nahasapeemapetilon er eigandi verslunarinnar Kwik-E-Mart í bænum Springfield og hefur verið talað um að allar staðalímyndir sem Bandaríkjamenn hafa haft um suðurasíska innflytendur virðast birtast í persónunni.

Gagnrýnin varð sérstaklega hávær eftir frumsýningu myndar grínistans Hari Kondabolu, The Problem with Apu, fyrir tæpu ári. Í myndinni ræddi hann við fjölda leikara af indverskum uppruna. Hank Azaria, leikarinn sem talar fyrir Apu í þáttunum, bað aðstandendur Simpsons-þáttanna að hlýða á gagnrýnisraddirnar og grípa til aðgerða.

Heigulsháttur

Framleiðandinn Adi Shankar segir í samtali við Indiewire  að Apu verði nú skrifaður út úr þáttunum. „Ég hef heyrt það úr mörgum áttum að þeir muni losa sig alfarið við Apu,“ segir Shankar. „Þeir munu ekki gera mikið mál úr því eða þannig, en þeir muni losa sig við hann til að losna við ágreininginn.“

Shankar segir þetta vera heigulskap hjá framleiðendum þáttanna. „Þetta er ekki skref fram á við, eða skref aftur á bak. Þetta er bara risavaxið skref til hliðar.“

Fór öfugt í sig

Kondabolu, sem er af indverskum ættum líkt og persónan Apu, sagðist á sínum tíma hafa orðið aðdáandi Simpsons-þáttanna frá því að persónurnar birtust fyrst á skjám Bandaríkjamanna í innslögum í skemmtiþættinum The Tracy Ullman Show árið 1989. Hann sagði þó persónuna Apu ávallt hafa farið eitthvað öfugt ofan í sig, einnig þegar hann var barn.

„Til að byrja með var ég mjög spenntur níu ára strákur þar sem brún andlit voru ekki algeng í sjónvarpinu,“ sagði Kondabolu í samtali við NBC, og bætti við að síðar hafi runnið á hann tvær grímur. Hann sagði það hafa verið sérstaklega erfitt að kyngja því að leikarinn Azaria, sem er hvítur, hafi ljáð persónunni rödd sína. „Að ímynda sér að hvítur gaur kæmi með þessa rödd, það var kvöl og pína. Þetta var eins og að verða fyrir einelti frá aðila handan sjónvarpsskjásins.“

Kondabolu segir á Twitter að reynist þær fréttir réttar, að Apu verði skrifaður út úr þáttunum, sé það slæmt. Hægt hefði verið að finna leiðir til að láta persónuna „virka“.

Að neðan má sjá uppistand Kondabolu þar sem hann ræðir Apu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×