Erlent

Gítarleikarinn Todd Youth er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Todd Youth varð 47 ára gamall.
Todd Youth varð 47 ára gamall.
Bandaríski rokkgítarleikarinn Todd „Youth“ Schofield er látinn. Youth, sem spilaði meðal annars með sveitum á borð við Danzig og Motörhead, varð 47 ára gamall.

Israel Joseph, liðsfélagi Youth í sveitinni Fireburn, staðfesti andlát félaga síns á Facebook, en Youth hafði spilað með sveitinni síðustu ár.

„Orð fá því ekki lýst hvað ég er sorgmæddur vegna fráfalls bróður míns, Todd Youth. Tónlist hans mun ávallt lifa og ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með honum og að við stofnuðum saman Fireburn,“ segir Joseph.

Todd Youth kom frá New Jersey og hóf tónlistarferilinn þegar tólf ára gamall og leiddi það til þess að hann fékk viðurnefnið Youth. Á ferli sínum spilaði Youth meðal annars með goðsögnum á borð við Ace Frehley, Glen Campbell og sveitinni Cheap Trick.

Í lok tíunda áratugarins gekk hann til liðs við þungarokksveitina Danzig, og undir lok árs 2003 spilaði hann nokkrum sinnum með Motörhead þegar hann fyllti tímabundið skarð gítarleikarans Phil Campbell.

Að neðan má sjá viðtal Stone Films NYC við Youth þar sem hann svarar spurningum um ferilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×