Sport

Árangurinn betri en hægt var að vonast eftir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Lissabon skrifar
Íslenska liðið stóð sig frábærlega í kvöld
Íslenska liðið stóð sig frábærlega í kvöld mynd/kristinn arason
Blandað lið unglinga lenti í 4. sæti í undankeppni EM í hópfimleikum og keppir til úrslita á föstudaginn. Björk Guðmundsdóttir, þjálfari liðsins, sagði liðinu hafa gengið framar vonum í kvöld.

„Þetta er bara frábær tilfinning og gæti ekki verið betra,“ sagði Björk þegar úrslitin voru ljós.

Íslenska liðið gerði aðeins af mistökum, það voru tvö föll í æfingum á dýnu og eitt á trampólíni, en Björk var þrátt fyrir það mjög ánægð með frammistöðu liðsins.

„Þetta var bara betra en við gátum vonast eftir í rauninni, búin að lenda aðeins í meiðslum og svona, þannig að í rauninni erum við bara hæst ánægð. Ótrúlega glöð og stolt af krökkunum.“

Miðað við undankeppnina má áætla að Svíar og Danir verði að berjast um gullið en Íslendingar eiga góða möguleika á bronsinu og geta jafnvel komist hærra.

„Það er allt opið með þriðja sætið. Við eigum eitthvað inni og höldum okkar striki,“ sagði Björk Guðmundsdóttir.

Íslenska liðið keppir til úrslita á föstudag, klukkan 15:45 að íslenskum tíma, og verður keppnin í beinni textalýsingu hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×