Leikjavísir

Höfundur Witcher vill fúlgu fjár fyrir tölvuleikina

Samúel Karl Ólason skrifar
Witcher leikirnir fjalla um skrímslaveiðimanninn Geralt. Netflix vinnur nú að gerð sjónvarpsþátta sem eru einnig byggðir á bókum Sapkowski.
Witcher leikirnir fjalla um skrímslaveiðimanninn Geralt. Netflix vinnur nú að gerð sjónvarpsþátta sem eru einnig byggðir á bókum Sapkowski.
Andrzej Sapkowski, höfundur bókanna um skrímslaveiðimanninn Geralt, hefur farið fram á að fyrirtækið CD Projekt Red greiði sér fúlgur fjár vegna Witcher tölvuleikjanna, sem byggja á bókum hans. Hann vill rúmlega sextán milljónir dala, ofan á þá greiðslu sem hann fékk upprunalega. Það samsvarar um 1,8 milljörðum króna.



Witcher leikirnir, og þá sérstaklega sá þriðji og síðasti, hafa notið gífurlegra vinsælda á undanförnum árum.

CD Projekt mun hafa fengið beiðni Sapkowski í gær og hefur strax hafnað henni. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja kröfu rithöfundarins ómarktæka.

Fyrirtækið hefur birt kröfu Sapkowski á netinu en þar segir að krafan byggi að hluta til á því að CD Projekt hafi í raun einungis greitt fyrir að gera einn leik en ekki þrjá.



Eins og áður segir hefur kröfunni verið hafnað og segja forsvarsmenn CD Projekt að þeir hafi greitt Sapkowski fyrir notkun á efni hans samkvæmt lögum. Þeir segja þó að þeir vilji leita leiða til að leysa deiluna.

Sapkowski var í viðtali við Eurogamer í fyrra og þar sagðist hann sjá eftir því að hafa ekki samþykkt boð CD Projekt um hlut af hagnaði fyrirtækisins. Hann hafi ekki haft trú á því að fyrirtækið myndi græða á leikjunum og þess vegna hafi hann beðið um eingreiðslu.



„Það var heimskulegt. Ég var heimskur að skilja allt í höndum þeirra því ég hafði ekki trú á þeim. En hver hefði getað séð fram á velgengni þeirra? Ég gat það ekki,“ sagði Sapkowski.

Fyrsti Witcher leikurinn kom út árið 2007, annar leikurinn kom út árið 2011 og sá þriðji árið 2015. Þá gaf CD Projekt út leikinn Gwent árið 2015 en þeir tilkynntu nýverið nýjan leik, Thronebreaker, sem er ekki enn kominn út.


Tengdar fréttir

Henry Cavill tekur að sér hlutverk Geralt

Breski leikarinnar Henry Cavill, sem er hvað þekktastur fyrir að leika Superman, mun leika hinn víðfræga skrímslaveiðimann Geralt í nýjum þáttum Netflix.

Witcher 3: Einstakt ævintýri

Að spila Geralt of Rivia, sem er stökkbreyttur maður sem flakkar um heiminn og gengur frá skrímslum fyrir peninga, er einstök upplifun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×