Erlent

Pútín kallar Skripal svikara og drullusokk

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AP/Alexander Zemlianichenko
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, er ósáttur við að einhverjir fjölmiðlar séu að reyna að gera einhvern mannréttindasinna úr rússneska njósnaranum fyrrverandi, Sergei Skripal. Forsetinn vísaði þó ekki í neina umfjöllun um Skripal máli sínu til stuðnings en sagði ljóst að Skripal væri ekkert sérstakur.

„Hann er bara njósnari. Föðurlandssvikari,“ sagði Pútín og gekk lengra skömmu seinna: „Hann er drullusokkur.“



Pútín tjáði sig um Skripal á orkuráðstefnu sem fer nú fram í Moskvu og sagðist vonast til þess að umræðan um Skripal hætti sem fyrst. Hún hefði verið blásin upp úr öllu valdi.

Skripal og dóttir hans Yulia urðu fyrir eitrun Novichok taugaeitursins í mars og voru mjög þungt haldin í nokkurn tíma. Yfirvöld Bretlands hafa sakað leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, um að reyna að ráða Skripal af dögum. Myndir hafa verið birtar af tveimur mönnum sem grunaðir eru um árásina og hefur annar þeirra verið opinberaður sem Anatoliy Chepiga, ofursti í GRU.



Bretar hafa haldið því fram að skipunin um að ráða Skripal af dögum hafi komið frá hæstu stigum rússneskra stjórnvalda. Það er, komið frá Pútín sjálfum.

Skripal starfaði fyrir GRU á árum áður en sveik Rússland og veitti Bretum upplýsingar fyrir peninga. Hann var þó á endanum handtekinn og dæmdur fyrir njósnir.

Sjá einnig: Skripal vildi ekki trúa því að Rússar hefðu reynt að ráða hann af dögum



Honum var þó sleppt árið 2010 þegar Rússar skiptu honum og öðrum fyrir njósnara þeirra sem höfðu verið handsamaðir. Eftir það hefur Skripal reglulega rætt við starfsmenn annarra leyniþjónusta. Pútín nefndi það sérstaklega til marks um það að Skripal væri drullusokkur.


Tengdar fréttir

Annar Rússinn opinberaður sem ofursti í GRU

Annar mannanna sem grunaðir eru um að hafa reynt að myrða Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu heitir raunverulega Anatoliy Chepiga og er ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins, GRU.

Kreml reynir að þvo tilræðismennina af Pútín

Talsmaður ríkisstjórnar Vladímírs Pútín segir að tveir menn sem Bretar telja hafa reynt að myrða rússneskan fyrrverandi njósnara í mars hafi engin tengsl við forsetann eða ríkisstjórn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×