Viðskipti innlent

Svissneskt félag kaupir tæp 13 prósent í HS Orku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Í tilkynningu frá DC Renewable Energy kom fram að og forystuhlutverk HS Orku í tækniþróun á sviði orkumála hafi verið meðal ráðandi þátta í ákvörðun um fjárfestingu á fyrirtækinu.
Í tilkynningu frá DC Renewable Energy kom fram að og forystuhlutverk HS Orku í tækniþróun á sviði orkumála hafi verið meðal ráðandi þátta í ákvörðun um fjárfestingu á fyrirtækinu. Vísir/Vilhelm
Svissneska fjárfestingafélagið DC Renewable Energy AG hefur skrifað undir kaupsamning á 12,7 prósenta hlut fagfjárfestasjóðsins ORK í HS Orku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Samkvæmt tilkynningunni hefur DC Renewable Energy kynnt sér íslenskan orkugeira um árabil í gegnum systurfélag sitt, Atlantic SuperConnection, sem sérhæfir sig í þróunarverkefnum í orkugeira. Þá segir að á þeim tíma hafi félaginu orðið ljós þau tækifæri sem falist gætu í frekari nýtingu á jarðvarma til orkuframleiðslu á alþjóðavísu og teldi fjárfestingu í HS Orku því vænlegan fjárfestingarkost.

Í tilkynningunni segir einnig að félagið telji tafarlausra aðgerða þörf á sviði loftslagsmála og vilji sé fyrir hendi innan fyrirtækisins til þess að taka þátt í aðgerðum gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.

Það verði best gert með notkun grænnar orku á heimsvísu, að mati félagsins. Þar spili nýting jarðvarma stórt hlutverk, en hún geti verið lykilþáttur í að auka hlut orkugjafa sem lágmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Þá segir að sú staðreynd að HS Orka sé meðal fremstu fyrirtækja í heimi hvað varðar þekkingu á nýtingu jarðvarma og forystuhlutverk fyrirtækisins í tækniþróun á sviði orkumála hafi verið meðal ráðandi þátta í ákvörðun um fjárfestingu á fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×