Innlent

Lenda þurfti flugvél á Keflavíkurflugvelli vegna sprungu í framrúðu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lendingin gekk vel, að sögn Guðjóns Helgasonar upplýsingafulltrúa Isavia. Mynd frá Keflavíkurflugvelli.
Lendingin gekk vel, að sögn Guðjóns Helgasonar upplýsingafulltrúa Isavia. Mynd frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm
Keflavíkurflugvelli barst í kvöld beiðni um öryggislendingu frá áhöfn farþegaflugvélar vegna sprungu í framrúðu vélarinnar. Þetta staðfestir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við Vísi. Mbl greindi fyrst frá málinu í kvöld.

Guðjón segir að hann hafi ekki fengið upplýsingar um það frá hvaða flugfélagi vélin er og ekki heldur hvaðan hún var að koma. Hann taldi þó víst að um erlent flugfélag væri að ræða þar eð vélin er hvorki undir merkjum Icelandair né WOW Air. Þá áréttar Guðjón að ekki hafi verið um nauðlendingu að ræða heldur öryggislendingu. Lendingin hafi gengið vel og engan sakað.

Samkvæmt heimildum Mbl voru 123 farþegar um borð í flugvélinni og munu þeir dvelja hér á landi í nótt. Guðjóni er þó ekki kunnugt um fjölda eða aðstæður umræddra farþega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×