Veiði

Hátt í 40% minni veiði í Blöndu milli ára

Karl Lúðvíksson skrifar
Veiðin var heldur dræm í Blöndu í sumar
Veiðin var heldur dræm í Blöndu í sumar
Þetta laxveiðisumar var fyrir margar sakir nokkuð sérstakt en það sem helst situr í veiðimönnum er mun lakari veiði á norðurlandi en menn áttu kannski von á.

Það er hægt að segja að dýfan sem er í veiðitölum á norðurlandi sé eitthvað sem verði að horfa í með alvarlegum augum en á sama tíma má líka benda á að það er fullkomlega eðlilegt að það séu sveiflur í náttúrunni.  Til að mynda má alveg segja að 40% minni veiði í Blöndu milli ára sé hrun en það þarf ekki að þýða að það sé varanlegt ástand.

Blanda endaði í 870 löxum en í fyrra var veiðin 1.433 laxar sem þótti ekkert sérstaklega mikil veiði á Blöndumælikvarða því við skulum ekki gleyma árum eins og 2013-2016 þegar meðalveiði þessara ára var 2.939 laxar með mestu veiðina 2015 uppá 4.829 laxa sem er mesta veiðin í Blöndu frá upphafi.  Frá 1975 er meðalveiðin 2.363 laxar og léleg ár eins og 2012 - 832 laxar, 2008 - 986 laxar, 2003 - 504 laxar, 2002 - 833 laxar og 2000 með 706 laxa gefa ekki neitt tilefni til að ætla að eitt lélegt ár séu einhverjar hamfarir.  Timabilið 2000-2003 var lélegt í ánni en hún kom alltaf til baka til dæmis með 2.413 árið 2009 og 2.611 laxa árið 2013.

Vissulega var þetta sumar langt frá væntingum fyrir norðan en það þarf meira en eitt slakt sumar í Blöndu til að ætla sér að dæma hana úr leik og það sama á við um hinar árnar á norðurlandi sem áttu slakt sumar.  Það gæti verið von og vísa hjá Blöndu að eiga stórleik á næsta sumri eða verðum við veiðimenn ekki í það minnsta að vona það?






×