Tónlist

Reykjavíkurdætur hitta í mark í Evrópu

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Það er ekki vitlaust að veðja á að Reykjavíkurdætur verði næsta stóra band frá Íslandi.
Það er ekki vitlaust að veðja á að Reykjavíkurdætur verði næsta stóra band frá Íslandi. Berglaug Petra Garðarsdóttir
„Þetta er auðvitað þvílík viðurkenning. Hinir listamennirnir sem eru tilnefndir í okkar flokki eru allt listamenn sem við höfum hlustað á og það að við séum tilnefndar í sama flokki sýnir okkur á hvaða stað við erum komnar. Við höfum náttúrulega verið að spila mjög mikið á stórum tónlistarhátíðum í Evrópu í sumar og erum komnar með mjög „solid live show“ og efni sem fólk hefur verið að taka rosalega vel og viðtökurnar hafa sýnt okkur að við erum komnar lengra en við vorum komnar bara á síðasta ári - þessi tilnefning er bara mjög „solid“ staðfesting á því. Nú er umboðsmaðurinn okkar í viðræðum við plötuútgefendur erlendis og það getur ekki skemmt fyrir að við höfum fengið þessa viðurkenningu,“ segir Steinunn Jónsdóttir úr Reykjavíkurdætrum aðspurð hvernig það sé að fá tilnefningu til Music Moves Europe Forward Talent (MMEFT) verðlaunanna.

„Þetta þýðir að aðrir vita jafn vel og við hvert okkar „potential“ er þannig að þetta kemur lítið á óvart en við erum að sjálfsögðu mjög ánægðar,“ bætir Anna Tara Andrésdóttir við.

Greint var frá því í gær á vef Fréttablaðsins að dæturnar hefðu hlotið tilnefningu til þessara verðlauna og að þær bætist þar með í flokk með íslensku sveitunum Of Monsters and Men og Ásgeiri Trausta – sem hlutu verðlaunin og „meikuðu“ það í kjölfarið eins og alþjóð veit.



Hljómsveitin Of Monsters and Men hefur unnið þessi eftirsóttu verðlaun.Mynd/Meredith Truax
Reykjavíkurdætur eru tilnefndar í flokknum hiphop en í hverjum flokki eru fjórar hljómsveitir eða listamenn og hreppa tvö bönd verðlaunin eftirsóttu.

Hvernig verðlaun eru þetta?

„Þetta eru verðlaun sem ráð innan Evrópusambandsins veitir tíu nýjum tónlistarmönnum eða hljómsveitum á hverju ári (hétu áður EBBA) og eru í raun viðurkenning fyrir að ná til áheyrenda utan síns heimalands. Allir listamennirnir sem fá tilnefningu eru í raun að springa út, það er búnir að byggja upp stóran áheyrendahóp en ekki kannski orðnir risastórir. Adele, MØ, Lykke Li, Damien Rice, Mumford & Sons og Dua Lipa hafa öll hlotið þessa viðurkenningu og eru þau öll með vinsælustu tónlistarflytjendum heimsins í dag.“

Aðspurðar hvort dæturnar ætli að mæta á verðlaunaafhendinguna með látum svarar Anna Tara:

„Auðvitað mætum við á verðlaunaafhendinguna og verðum með pop-up tónleika sem við höfum ekki enn tilkynnt skipuleggjendum.“

Verðlaunin verða afhent í janúar á næsta ári. Hér að neðan má sjá nýjustu afurð sveitarinnar, myndband við lagið Ekkert drama.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×