„Þetta þýðir að aðrir vita jafn vel og við hvert okkar „potential“ er þannig að þetta kemur lítið á óvart en við erum að sjálfsögðu mjög ánægðar,“ bætir Anna Tara Andrésdóttir við.
Greint var frá því í gær á vef Fréttablaðsins að dæturnar hefðu hlotið tilnefningu til þessara verðlauna og að þær bætist þar með í flokk með íslensku sveitunum Of Monsters and Men og Ásgeiri Trausta – sem hlutu verðlaunin og „meikuðu“ það í kjölfarið eins og alþjóð veit.

Hvernig verðlaun eru þetta?
„Þetta eru verðlaun sem ráð innan Evrópusambandsins veitir tíu nýjum tónlistarmönnum eða hljómsveitum á hverju ári (hétu áður EBBA) og eru í raun viðurkenning fyrir að ná til áheyrenda utan síns heimalands. Allir listamennirnir sem fá tilnefningu eru í raun að springa út, það er búnir að byggja upp stóran áheyrendahóp en ekki kannski orðnir risastórir. Adele, MØ, Lykke Li, Damien Rice, Mumford & Sons og Dua Lipa hafa öll hlotið þessa viðurkenningu og eru þau öll með vinsælustu tónlistarflytjendum heimsins í dag.“
Aðspurðar hvort dæturnar ætli að mæta á verðlaunaafhendinguna með látum svarar Anna Tara:
„Auðvitað mætum við á verðlaunaafhendinguna og verðum með pop-up tónleika sem við höfum ekki enn tilkynnt skipuleggjendum.“
Verðlaunin verða afhent í janúar á næsta ári. Hér að neðan má sjá nýjustu afurð sveitarinnar, myndband við lagið Ekkert drama.