Innlent

Segir Icelandair ekki hafa sýnt fram á ávinning

Sveinn Arnarsson skrifar
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
„Fyrirtækið hefur ekki sýnt fram á fjárhagslegan ávinning af þessari óskiljanlegu aðför sem setur líf fjölmargra starfsmanna úr skorðum,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, um þá ákvörðun Icelandair að bjóða 118 flugfreyjum og -þjónum í hlutastarfi að velja á milli uppsagnar og þess að fara í fullt starf.

Félagið hefur mótmælt ákvörðuninni harðlega. „Við lítum svo á að þetta sé gróft brot á kjarasamningi. Það hefur skapast hefð fyrir umræddum hlutastörfum. Við munum ekki una við einhliða ákvörðun Icelandair.“

Hún bendir á að í gegnum tíðina hafi Icelandair óskað eftir því að flugfreyjur og -þjónar taki að sér hlutastörf þegar erfiðleikar hafi steðjað að hjá fyrirtækinu til að koma í veg fyrir hópuppsagnir.

Berglind segir starfsumhverfi flugfreyja og -þjóna ólíkt flestum störfum. „Fyrirtækið ákveður upp á sitt einsdæmi hvort starfsmenn skuli vinna yfirvinnu. Fjarvera frá heimili getur verið um 240 stundir á mánuði fyrir fullt starf og skyldi því engan undra að margir óski eftir því að vera í hlutastarfi.“

Þá segir Berglind ákvörðunina aðför að kvennastétt. 99 prósent þeirra sem verði fyrir uppsögnum séu konur. „Stjórnendur Icelandair ákveða nú, árið 2018, að hverfa aftur til fyrri tíma þegar réttindi kvenna á vinnumarkaði voru takmörkuð.“




Tengdar fréttir

Flugfreyjur í áfalli vegna afarkosta Icelandair

Flugfreyjum og flugþjónum í hlutastarfi hjá Icelandair hefur verið gert að velja á milli þess að fara í fulla vinnu frá og með 1. janúar næstkomandi ellegar missa vinnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×