Erlent

Bachelet hjólar beint í Kína í fyrstu ræðu sinni í nýju starfi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Michelle Bachelet, nýr mannréttindastjóri SÞ.
Michelle Bachelet, nýr mannréttindastjóri SÞ. Vísir/EPA
Michelle Bachelet, nýr mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, nýtti fyrstu ræðu sína í nýju starfi í gær til að kalla eftir því að kínverska ríkisstjórnin heimilaði eftirlitsmönnum að rannsaka ásakanir um að Kínverjar héldu allt að milljón Uyghurum gegn vilja sínum í heilaþvottarbúðum í Xinjiang.

Ræðan fylgir í kjölfar tveggja skýrslna um málið. Mannréttindaráðið birti skýrslu um málið í lok síðasta mánaðar og svo birti Mannréttindavaktin (HRW) langa skýrslu á sunnudaginn. „Kínverska ríkisstjórnin er að fremja mannréttindabrot í Xinjiang á skala sem hefur ekki sést þar í landi í áratugi,“ sagði Sophie Richardson, yfirmaður Mannréttindavaktarinnar í Kína, á sunnudag.

Bachelet, áður forseti Síle, sagði að rannsóknarnefnd SÞ hefði sett fram alvarlegar ásakanir á hendur Kínverja. „Ég hef sjálf verið í haldi af pólitískum ástæðum og er dóttir pólitískra fanga. Ég hef verið bæði flóttamaður og læknir, meðal annars barna sem þurftu að þola pyntingar,“ sagði Bachelet í ræðu sinni.

Hún lýsti einnig yfir áhyggjum sínum af því að 500 börnum sem innflytjendamálayfirvöld í Bandaríkjunum tóku af foreldrum sínum hafi ekki enn verið skilað til fjölskyldna sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×