Fótbolti

Sýndu ferðalag Söru Bjarkar og félaga til Akureyrar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir á leiðinni upp í flugvélina.
Sara Björk Gunnarsdóttir á leiðinni upp í flugvélina. Mynd/Youtube-síða VfL Wolfsburg
Fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins verður andstæðingur Íslands í kvöld þegar hún og félagar hennar í VfL Wolfsburg mæta Þór/KA í Meistaradeild kvenna.

Leikur Þór/KA og VfL Wolfsburg hefst klukkan 16.30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þetta er fyrri leikur liðanna í 32 liða úrslitunum en sá seinni verður spilaður á

AOK leikvanginum í Wolfsburg eftir tvær vikur eða miðvikudaginn 26. september.

Það mun reyna mjög mikið á Þór/KA stelpurnar í kvöld enda að mæta tvöföldum þýskum meisturum sem fóru alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra.

VfL Wolfsburg fylgdi liðinu sínu eftir með myndavél þegar það ferðaðist frá Þýskalandi til Akureyrar.

Þar má sjá þær meðal annars mæta á Braunschweig Wolfsburg flugvöllinn í rútu og fara upp í flugvélina sem flaug með þær beint til Akureyrar.

Sara Björk er að sjálfsögðu áberandi í myndbandinu enda sérstök stund fyrir hana að vera mæta löndum sínum í Meistaradeildinni.

Sara Björk er líka kominn á fullt eftir meiðslin og vonbrigðin með landsliðinu á dögunum. Hún skoraði þannig tvívegis í 11-0 bikarsigri á Hannover 96 um helgina.

Seinna mark Söru Bjarkar kom úr vítaspyrnu en hún klúðraði vítaspyrnu í lok leiksins á móti Tékkum þar sem mark hefði komið íslenska liðinu í umspil um sæti á HM.

Það má sjá myndbandið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×