Erlent

Fordæmalausar aðgerðir gegn Ungverjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands. Vísir/EPA
Evrópuþingið samþykkti í gær, með 448 atkvæðum gegn 197, að beita Ungverja fordæmalausum refsiaðgerðum vegna meintra brota ríkisstjórnar Viktors Orbán forsætisráðherra gegn grunngildum Evrópusambandsins. Orbán-stjórnin var sögð hafa ráðist gegn fjölmiðlum, minnihlutahópum og lögum og reglu en þessum ásökunum hafnaði Orbán.

Tvo þriðju hluta greiddra atkvæða þurfti til að virkja sjöundu grein Evrópusáttmálans, sem felur í sér að svipta aðildarríki ákveðnum réttindum. Það tókst og munu þjóðarleiðtogar nú þurfa að fara yfir málið. Þá kemur í ljós hvort eða hvaða refsiaðgerðum verður beitt en þetta er í fyrsta skipti sem Evrópuþingið samþykkir aðgerðir sem þessar gegn aðildarríki.

Ákvörðun gærdagsins var tekin eftir harða gagnrýni undanfarinna missera á stefnu Orbáns í innflytjendamálum. Ríkisstjórn hans hefur fylgt harðlínustefnu í málaflokknum, einkum gagnvart flóttamönnum. Meðal annars hefur verið gripið til þess að gera „aðstoð við ólöglega innflytjendur“ refsiverða. Þá hefur Orbán-stjórnin einnig bolað í burtu óháðum félagasamtökum sem leggja áherslu á að hjálpa flóttamönnum.

Orbán hélt sjálfur ræðu fyrir Evrópuþinginu á þriðjudaginn. „Skýrslan sem þið hafið fyrir framan ykkur er móðgun við Ungverjaland og við heiður ungversku þjóðarinnar,“ sagði Orbán þá og bætti því við að aðförin gegn Ungverjum væri ósanngjörn. Ríkið hefði fullan rétt til þess að byggja stefnu sína á „kristilegum fjölskyldugildum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×