Lífið

Langar að prófa fjallaskíði

Valdimar Kári æfir fótbolta og handbolta til skiptis.
Valdimar Kári æfir fótbolta og handbolta til skiptis. Vísir/Ernir
Valdimar Kári er byrjaður að plana stórafmælið á mánudaginn. En hvernig?

Við erum þrír strákar sem ætlum að halda upp á afmælin okkar saman og það er bíóafmæli. Við bjóðum öllum strákunum í árganginum okkar í Flataskóla.

Hvaða mynd ætlið þið að sjá? Hún heitir The House with a Clock in Its Walls og fjallar um strák sem er nýorðinn munaðarlaus og fer þá til frænda síns og konunnar hans. Þar kemst hann að því að frændi hans er seiðkarl.

Úúú … en spennandi. En hvað finnst þér skemmtilegast að læra í skólanum? Það er úr mörgu að velja en ég mundi segja stærðfræði. Mér finnst gaman í margföldun.

Ertu íþróttagaur líka? Já, ég er í Stjörnunni og æfi fótbolta og handbolta til skiptis.

En hvað um skíði? Ja, ég æfi nú ekki á skíðum í Stjörnunni en fer oft að renna mér á veturna, ef snjór er. Hef farið til útlanda í skíðaferðir, bæði Austurríkis og Ameríku. Mig langar að læra á gönguskíði, eins og mamma, og líka prófa fjallaskíði, þá getur maður farið upp brekkur á skíðunum.

Hefurðu ferðast eitthvað í sumar? Já, ég fór til Majorka og er nýkominn heim. Ég fékk fullt af fötum, meira að segja afmælisgjöfina frá mömmu minni, það er nýr æfingabúningur Barselónaliðsins, hann er fjólublár með grænum röndum niður axlirnar og niður á olnboga. Ég má ekki nota hann fyrr en eftir afmælið.

Við fórum að skoða tvo kastala og í risa vatnagarð. Stærsta rennibrautin er rosaleg, svona 125 metra há. Ég var mjög stressaður, ég er sko pínu lofthræddur. Hinrik, bróðir minn er samt enn lofthræddari en ég dró hann í hana. Svo var ótrúlegt útsýni úr veitingastað sem við fórum á síðasta kvöldið, snekkjur og skútur og lítil eyja.

Ég þurfti að plata mömmu svolítið í lokin til að við bræðurnir gætum komið henni á óvart, því hún átti afmæli. Ég bað hana að hjálpa mér að leita að klósettinu og þá gat Hinrik pantað eftirrétt með stjörnuljósum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×