Innlent

Ferðamenn festust í Gróttu eftir að flæddi að

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla þurfti að hafa afskipti af ferðamanni, sem var öfurölvi, við Alþingishúsið í gærkvöldi.
Lögregla þurfti að hafa afskipti af ferðamanni, sem var öfurölvi, við Alþingishúsið í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveit var kölluð út í gærkvöldi eftir að ferðamenn urðu strandaglópar í Gróttu eftir að flæddi að.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að ferðamennirnir hafi verið að skoða norðurljós. Björgunarsveitin var kölluð út, mætti á bát og ferjaði liðið aftur til baka.

Í dagbók lögreglu kemur fram að lögregla hafi þurft að hafa afskipti af mjög ölvuðum erlendum ferðamanni við Alþingishúsið skömmu eftir klukkan 20 í gærkvöldi. Maðurinn gat ekki gert grein fyrir sér og ekki sagt hvar hann gisti.  Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans lagast.

Lögregla stöðvaði einnig bíl í Kópavogi skömmu eftir miðnætti þar sem ökumaðurinn, sem var kona, hafði enginn skilríki meðferðis. Aðspurð gaf konan lögreglumönnum upp ranga kennitölu en kom síðar með rétta kennitölu og reyndist hún vera svipt ökuréttindum. „Mun þetta vera ítrekað hjá konunni þ.e. að gefa ranga kennitölu.  Konan er einnig kærð fyrir skjalafals þar sem bifreiðin reyndist vera á stolnum skráningarnúmerum og því ótryggð. Númerin höfðu verið tekin af samskonar bifreið í sama lit,“ segir í dagbók lögreglu.

Lögregla þurfti ennfremur að hafa afskipti af fjölda ökumanna sem óku undir áhrifum áfengis eða fíkniefna bæði í gærkvöldi og í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×