Innlent

Leggja til staðarval fyrir nýtt sjúkrahús

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að borgarstjórn Reykjavíkur hafi frumkvæði að því að velja heppilegan stað fyrir uppbyggingu á öðru sjúkrahúsi í Reykjavík. Tillagan verður rædd á fundi borgarstjórnar í dag.

Í tillögunni felst að skipaður verði samstarfshópur undir forystu Reykjavíkurborgar um efnið. Hópnum verði falið að finna heppilegan stað með tilliti til samgangna, íbúa- og atvinnuþróunar og öryggismála.

Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að ekki sé litið fram hjá því að rannsóknarhús og meðferðarkjarni verði áfram byggð upp við Hringbraut. Aftur á móti hafi lítil umræða farið fram um hvort öll spítalastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu eigi að vera á einum stað og rekin af sama aðila.

„Það er mikilvægt að borgarstjórn taki af skarið enda ekki bara stórt skipulagsmál heldur mikilvægt hagsmunamál fyrir borgina, læknastéttina og íbúa höfuðborgarsvæðisins. Allt of oft fara stór verkefni af stað án nægjanlegs undirbúnings en Reykjavíkurborg þarf að veita stofnunum tækifæri til að vaxa og dafna í borginni. Auk þess sem þessi tillaga er sáttaleið í stóru máli,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×