Fótbolti

Klopp segir að Neymar sé enginn svindlari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar skoraði fyrir Brasilíu í vináttulandsleik á Anfield í júní síðastliðnum.
Neymar skoraði fyrir Brasilíu í vináttulandsleik á Anfield í júní síðastliðnum. Vísir/Getty
Brasilíski knattspyrnmaðurinn Neymar mætir á Anfield í kvöld þegar lið hans Paris Saint Germain spilar við Liverpool í Meistaradeildinni. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur tjáð sig um leikaraskap Neymar og hefur kannski aðra sýn á hann en margir.

Neymar „eyðilagði“ endanlega ímynd sína á HM í Rússlandi í sumar með endalausum leikaraskap og látalátum eftir meinlausustu brot.

Klopp kom honum engu að síður til varnar á blaðmannafundi fyrir leikinn og Daily Mail sló því upp í blaði sínu í morgun.





Dæmi um vandamál Neymar vegna orðsporðsins var í vináttulandsleik á dögunum en þar fékk hann spjald fyrir leikaraskap þótt að hafi verið brotið á honum.

Leiksýningin hans í Rússlandi í sumar mun fylgja honum um ókomna tíð.

„Ég er ekki mikið að fylgjast með svona hlutum en ég sá nokkra leiki á HM og vissi að fólk var mikið að tala um það að hann gerði of mikið úr hlutunum,“ sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundinum.

„Þetta eru eðlileg viðbrögð hjá honum að mínu mati því hann er skotspónn varnarmanna og hann vill verja sjálfan sig. Ef mótherji fær gult spjald þá er hann um leið mun nær því að fá rautt spjald,“ sagði Klopp.

„Mér finnst þetta vera klókt hjá honum og hann er að bjarga sjálfum sér. Það þarf samt enginn að hafa áhyggjur af því að við ætlum að sparka hann niður. Við spilum fótbolta og reynum að vinna boltann. Við reynum að loka á sendingar til hans og reynum að sjá til þess að hann vinni ekki boltann. Það er ekki létt verk samt,“ sagði Klopp.

„Neymar er frábær fótboltamður og einstakur leikmaður. Hann var ekki heill á HM. Hann spilaði samt fyrir þjóð sína. Ég tel hann ekki vera leikmann sem vill stunda leikaraskap. Ef svo væri þá gæti hann ekki spilað sinn fótbolta,“ sagði Klopp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×