Fótbolti

Við höfum verið lengi með augun á Þýskalandsleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís skoraði tvö mörk í síðasta landsleik.
Glódís skoraði tvö mörk í síðasta landsleik. Fréttablaðið/Eyþór
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Íslands á Slóveníu í síðasta leik kvennalandsliðsins í júní. Með sigrinum komst Ísland aftur á topp síns riðils í undankeppni HM og opnaði um leið á möguleikann á að tryggja sér sæti á HM með sigri á Þýskalandi á laugardaginn.

„Við vorum með frekar rólega æfingu á mánudaginn því flestir voru að spila um helgina. Það var meiri hraði á æfingunni í gær [í fyrradag] og svo verður taktísk æfing í dag [í gær],“ sagði Glódís í samtali við Fréttablaðið fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í gær.

Leiksins gegn Þýskalandi hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda mikið undir: sæti á HM í Frakklandi á næsta ári. Íslenska kvennalandsliðið hefur þrisvar komist á EM en aldrei á HM.

Stærsti landsleikurinn

„Við höfum verið lengi með augun á þessum leik. Þetta er stór leikur og algjör úrslitaleikur,“ segir Glódís.Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún spilað 68 landsleiki. Hún segir að leikurinn gegn Þýskalandi sé stærsti leikur íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi. „Ég held það, þetta er allavega sá stærsti sem ég hef tekið þátt í á mínum landsliðsferli,“ segir Kópavogsmærin.

Ísland vann fyrri leikinn gegn Þýskalandi með þremur mörkum gegn tveimur. Síðan þá hafa orðið breytingar á þýska liðinu og það komið með nýjan þjálfara. En er þýska liðið á betri stað í dag en það var fyrir ári þegar það mætti því íslenska í Wiesbaden?

„Já, líklega. Þær eru búnar að skipta um þjálfara og með frábært lið. Þótt það vanti stór nöfn hjá þeim koma bara önnur inn í staðinn,“ segir Glódís. „Við þurfum að loka á þeirra styrkleika sem eru margir. Svo verðum við að nýta skyndisóknirnar sem við fáum.“

Þótt athyglin hafi óhjákvæmilega verið á leiknum gegn Þýskalandi á laugardaginn mætir Ísland Tékklandi þremur dögum síðar. Sá leikur gæti reynst mikilvægur ef Íslendingar vinna ekki Þjóðverja. Jafntefli í leiknum á laugardaginn yrðu ágætis úrslit en þá þyrfti Ísland að vinna Tékkland til að tryggja sér farseðilinn á HM. Glódís segir að íslenska liðið spili til sigurs á laugardaginn en það sé meðvitað um að jafntefli gæti líka reynst dýrmætt.

„Við stefnum á sigur en ef þetta endar með jafntefli er það eitthvað sem við getum unnið með. En þá verðum við að vinna á þriðjudaginn,“ segir Glódís.

Uppselt í fyrsta sinn

Uppselt er á leikinn gegn Þýskalandi en þetta er í fyrsta sinn sem uppselt er á kvennalandsleik á Íslandi. „Það er nýtt og frábært fyrir íslenskar íþróttir að það verði fullur völlur. Það er gaman fyrir alla,“ segir Gló­dís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×