Þættirnir voru sýndir í rúmlega 180 löndum og þýddir á fjölda tungumála. Þar á meðal á ensku og kölluðust þættirnir þá Lazy Town og fékk Glanni Glæpur nafnið Robbie Rotten.
Erlendir fjölmiðlar hafa greint frá fráfalli Stefáns Karls, þar á meðal fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC sem segir frá ferli Stefáns sem leikara og baráttu hans við krabbamein.
Stefáns er einnig minnst á vef Fox News og á Boston Globe þar sem rifjað er upp þegar Stefán lék í uppfærslu á verkinu Þegar trölli stal jólunum eftir Dr. Seuss í Boston.

Þá var greint frá andláti hans á vef TMZ, Hello! og People ásamt fjölda annarra.
Það sem einnig hefur gerst í kjölfar fráfalls Stefáns Karls er að mikill kippur hefur orðið á undirskriftasöfnun á vefnum Change.org þar sem kallað er eftir því að stytta verði reist í heimabæ hans Hafnarfirði. Tæplega 140 þúsund manns hafa lagt nafn sitt við áskorunina þegar þetta er ritað en stefnt var að 150 þúsund manns þegar lagt var af stað með hana.
Það var Adem E. frá Glasgow sem hóf þá undirskriftasöfnun í fyrra. Stefán Karl tjáði sig um þessa undirskriftasöfnun um svipað leyti þar sem hann sagðist þakklátur fyrir hlý orð í sinn garð en sagðist fullkomlega andvígur því að verða einhver stytta.
Eftir að fregnir bárust af andláti Stefáns ákváðu stjórnendur spjallborðsins Dank Memes á Reddit að leyfa einungis færslur á spjallborðinu sem tengjast Stefáni í 24 klukkustundir.
Eitt af innleggjunum þar var birt til að hvetja lesendur spjallborðsins, sem eru 1,2 milljónir talsins, að gerast áskrifendur að Youtube-rás Stefáns, en frá því að innleggið var birt í gærkvöldi hefur áskrifendafjöldi hans aukist úr 206.000 í 250.000. Markmiðið með færslunni var að rás Stefáns næði milljón fylgjendum, og fengi þá svokallaðan gullhnapp, en í einu síðasta myndbandinu sem Stefán birti þakkar hann fylgjendum sínum fyrir eftir að hafa náð „silfurhnappi“.
Stefán Karl varð að óvæntri internet-stjörnu árið 2016 þegar milljónir horfðu á svokölluð meme honum til heiðurs.
Var þar um að ræða lag úr Latabæ sem nefnist We Are Number One. Í nóvember árið 2016 var sett útgáfa af laginu á YouTube og úr varð nokkurs konar æði þar sem fjölmörg myndbönd í svipuðum dúr spruttu upp sem milljónir horfðu á. Flest þessara myndbanda áttu það sameiginlegt að þeim fylgdi tengill á netsöfnun til styrktar Stefáni Karli og baráttu hans við krabbamein.