Erlent

Merkel telur Dyflinnarreglugerðina í raun óvirka

Þórir Guðmundsson og Kjartan Kjartansson skrifar
Merkel og Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar.
Merkel og Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar. Vísir/EPA
Angela Merkel kanslari Þýskalands segir að Dyflinnarreglugerðin sé í raun óvirk og að það þurfi að gera breytingar á fyrirkomulagi innflytjendamála í Evrópu. Þetta sagði hún á blaðamannafundi með forsætisráðherra Spánar Pedro Sanchez.

Merkel hefur verið í heimsókn á Spáni. Í gær tók gildi samkomulag milli Spánar og Þýskalands um að Þjóðverjar geti snúið hælisleitendum við, sem upphaflega komu til Evrópu í gegnum Spán. Þar er aðallega um að ræða fólk sem hefur lagt út á Miðjarðarhafið frá Marokkó og Túnis, alls 24 þúsund manns á þessu ári. Talið er að 1.500 manns hafi látið lífið við að reyna að komast á bátkænum yfir hafið - eða sjö einstaklingar á dag.

Merkel og Sanchez sögðust sammála um að nauðsynlegt væri að tryggja að sanngjarna dreifingu á hælisleitendum innan Evrópu þannig að þeir endi ekki allir í strandríkjunum við Miðjarðarhafið.

Meginákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar er að það Schengen-ríki sem hælisleitandi kemur fyrst til beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar hans. Á grundvelli hennar hafa íslensk stjórnvöld meðal annars vísað fjölda hælisleitenda til annarra Evrópulanda eins og Grikklands og Ítalíu þangað sem flestir þeirra koma fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×