Íslenski boltinn

KR úr fallsæti eftir stórsigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
KR vann mjög mikilvægan sigur í dag
KR vann mjög mikilvægan sigur í dag vísir/Ernir
KR vann mikilvægan sigur á FH í fallslag Pepsi deildar kvenna í fótbolta í Kaplakrika í dag. Með sigrinum sendi KR Grindavík niður í fallsæti.

Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, með sex stig hvort, í fallsætunum tveimur. Því var um gríðarlega mikilvægan leik að ræða fyrir bæði lið.

KR skoraði fyrsta mark leiksins rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins. Shea Connors skoraði eftir sendingu Sofíu Elsie Guðmundsdóttur. Staðan 0-1 í hálfleik.

Katrín Ómarsdóttir tvöfaldaði forystu KR á 65. mínútu upp úr föstu leikatriði en FH-ingar voru fljótir að svara. Það gerði Helena Ósk Hálfdánardóttir sem var nýkomin inn á sem varamaður.

Gestirnir úr Vesturbænum gerðu svo út um leikinn með tveimur mörkum á mínútu kafla. Betsy Hassett skoraði eftir sendingu Shea Connors og Mónika Hlíf Sigurhjartardóttir skoraði eftir stoðsendingu Katrínar Ómarsdóttur.

Í uppbótartíma negldi Sofía Elsie svo naglann í kistuna og KR fór með stóran 1-5 sigur.

Með sigrinum jafnaði KR Grindavík að stigum. KR-ingar voru með betri markatölu fyrir leikinn og hún er miklu betri eftir þennan stórsigur og því eru Suðurnesjakonur komnar í fallsætið. Þær eiga þó leik til góða gegn Val á þriðjudag.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×