Lífið

Þorir ekki að daðra af ótta við að vera kallaður nauðgari

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Henry Cavill hefur farið með hlutverk ofurhetjunnar Superman í þremur kvikmyndum.
Henry Cavill hefur farið með hlutverk ofurhetjunnar Superman í þremur kvikmyndum. Vísir/Getty
Breski leikarinn Henry Cavill, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Superman þessa áratugs, hefur sætt nokkurri gagnrýni fyrir ummæli sín um #MeToo-hreyfinguna og samskipti við konur.

Cavill var spurður hvort hann hefði lært eitthvað af #MeToo-hreyfingunni í viðtali við áströlsku útgáfu tímaritsins GQ í vikunni. Cavill sagðist „sem betur fer“ ekki hafa unnið með fólki sem sýndi af sér þá hegðun sem hreyfingin reyni að draga fram í dagsljósið og gagnrýna.

Þá var hann einnig inntur eftir því hvort #MeToo hafi hvatt hann til að endurskoða hegðun sína gagnvart konum. Cavill sagðist sammála því að breytinga væri þörf en að mikilvægt væri að viðhalda hinu góða úr fortíðinni. Hann væri til að mynda „gamaldags“ að því leytinu til að hann vildi „heilla og elta“ konur.

„Það er mjög erfitt að gera það ef ákveðnar reglur eru í gildi. Af því að þá er þetta bara: „Jæja, ég vil ekki fara og tala við hana vegna þess að ég mun vera kallaður nauðgari eða eitthvað“,“ sagði Cavill og bætti við að afar erfitt væri fyrir mann eins og hann, sem væri í sviðsljósinu, að daðra við konur.

Eins og áður sagði hefur Cavill verið gagnrýndur nokkuð fyrir þessi ummæli sín. „Þetta er fáránlegt. Ef Henry Cavill vill ekki vera kallaður nauðgari þá þarf hann bara að… nauðga ekki,“ skrifaði einn Twitter-notandi. Hún bætti einnig við að ef viðkomandi „þekkti ekki muninn á því að bjóða konum kurteisislega á stefnumót og að áreita þær kynferðislega“ ætti hann við alvarlegt vandamál að stríða.

Öðrum þótti þó augljóst hvað Cavill hefði átt við í viðtalinu og töldu gagnrýnisraddir gera úlfalda úr mýflugu.


Tengdar fréttir

Dekkri hlið af Superman

Ofurhetjurnar Batman og Superman munu koma saman á hvíta tjaldinu í fyrsta skiptið árið 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×