Lífið

Scarlett Johansson hættir við að leika trans manneskju

Sylvía Hall skrifar
Johansson var gagnrýnd fyrir að taka að sér hlutverkið í upphafi. Hún segist skilja afstöðu fólks sem gagnrýndi valið.
Johansson var gagnrýnd fyrir að taka að sér hlutverkið í upphafi. Hún segist skilja afstöðu fólks sem gagnrýndi valið. Vísir/Getty
Leikkonan Scarlett Johansson hefur hætt við hlutverk sitt í myndinni Rub & Tug eftir mikla gagnrýni frá trans samfélaginu, en í myndinni átti hún að leika mann sem fæddist í líkama konu.

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og segir sögu Dante „Tex“ Gill sem fæddist í röngum líkama sem kona. Hann var viðskiptamaður sem opnaði nuddstofur sem hann notaði undir vændisstarfsemi á sjöunda áratugnum.

Johansson tilkynnti í síðustu viku að hún hugðist taka að sér hlutverkið. Í kjölfarið spratt upp umræða um stöðu transfólks innan Hollywood, og hvers vegna það væri ekki alvöru trans manneskja fengin í hlutverkið og tjáðu margir trans leikarar sig um málið.



Í upphafi bentu fjölmiðlafulltrúar leikkonunnar á þá staðreynd að margoft hefði sís-kynja manneskja leikið transfólk í myndum, en sís-kynja einstaklingar eru þeir sem upplifa sig í því kyni sem þeir hlutu við fæðingu. Johansson skipti þó fljótlega um skoðun og tilkynnti að hún hugðist hafna hlutverkinu eftir að hafa kynnt sér málið frekar. 

„Í ljósi siðferðislegra spurninga sem hafa vaknað í kringum hlutverk mitt sem Dante Tex Gill hef ég ákveðið að draga mig úr verkefninu“, sagði Johansson í yfirlýsingu við tímaritið Out.

„Skilningur samfélagsins gagnvart transfólki heldur áfram að þróast í rétta átt, og ég hef lært mikið frá samfélaginu síðan ég tilkynnti að ég ætlaði að taka að mér hlutverkið og séð að það var ónærgætið af mér.“

Aðstandendur myndarinnar hafa ekki tjáð sig um hvort trans leikari verði fenginn í hlutverkið í stað Johansson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×