Innlent

Farþegar þurftu að bíða í vél Icelandair í tæplega fimm tíma í Osló

Birgir Olgeirsson skrifar
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Farþegar Icelandair á leið frá Noregi til Íslands þurftu að sitja í tæpar fimm klukkustundir í farþegaþotu flugfélagsins á Gardermoen-flugvellinum í Osló í dag. Farþegarnir fengu þau svör frá áhöfninni að framhjól vélarinnar væri í ólagi og þurfti að skipta um það. Enginn flugvirki á vegum Icelandair var á svæðinu og þurfti því að útvega flugvirkja frá öðru flugfélagi til að laga vélina.

Þegar vélinni var svo loksins lent á Keflavíkurflugvelli eftir rúmlega tveggja og hálfs tíma flug frá Osló tilkynnti flugstjórinn farþegunum að honum þætti leitt að þurfa að færa þeim slæmar fregnir á ný.

Þannig var mál með vexti að landgangurinn sem flugvélin átti að tengjast var bilaður og leist farþegum ekki á blikuna eftir að hafa þurft að bíða lengi eftir að komast frá Osló. Biðin var þó ekki ýkja löng og komust farþegarnir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á sjöunda tímanum í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×