Erlent

Brexit-samtökin brutu kosningalög

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VoteLeave-samtökin voru helstu stuðningsmenn Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, fyrir kosningarnar árið 2016.
VoteLeave-samtökin voru helstu stuðningsmenn Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, fyrir kosningarnar árið 2016. Vísir/getty
Kosningaeftirlit Bretlandseyja hefur sektað og tilkynnt samtökin sem leiddu baráttuna fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu til lögreglunnar. Eftirlitið telur sig hafa fundið skýrar sannanir fyrir því að samtökin, sem báru nafnið VoteLeave, hafi átt í nánu sambandi við önnur sambærileg samtök að nafni BeLeave.

Samtökin eru sögð hafa keypt saman þjónustu gagnaúrvinnslufyrirtækis fyrir um 675 þúsund pund, rúmlega 95 milljónir króna. Slíkt samstarf er tilkynningaskylt samkvæmt breskum kosningalögum en VoteLeave láðist að greina frá því. Þar að auki fóru samtökin langt fram úr leyfilegum fjárheimildum. Kosningabarátta VoteLeave kostaði næstum 500 þúsund pundum meira en lög heimila.

Fulltrúar beggja samtaka hafa verið sektaðir um tugþúsundir punda vegna málsins, en breskir kosningaeftirlitsmenn vanda þeim ekki kveðjurnar. Haft er eftir einum þeirra á vef Guardian að fulltrúar VoteLeave hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að torvelda rannsókn breskra stjórnvalda.

Þeir hafi barist hatrammlega gegn rannsókninni frá upphafi og þvertekið fyrir að láta kosningaeftirlitið fá upplýsingar sem kallað var eftir. Engu að síður telja eftirlitsmennirnir að rannsókn þeirra hafi sýnt með óyggjandi hætti fram á kosningalagabrot Brexit-manna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×