Fótbolti

Framherjinn sem leysti Kjartan Henry af gafst upp eftir fjóra daga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Pusic eltir uppi Nicolai Boilesen í leik Horsens og FCK um helgina.
Martin Pusic eltir uppi Nicolai Boilesen í leik Horsens og FCK um helgina. vísir/getty
Danska úrvalsdeildarliðið Horsens er aftur komið í framherjaleit eftir að maðurinn sem var fenginn til að leysa Kjartan Henry Finnbogason af hólmi fékk samningi sínum rift í dag.

Kjartan Henry var búinn að leiða sóknarlínu Horsens undanfarin ár en samdi fyrr í mánuðinum við ungverska stórliðið Ferencváros. Þá þurfti þjálfari Horsens, Íslandsvinurinn Bo Henriksen, nýjan mann.

Horsens fann sinn nýjan framherja og samdi við austurríska leikmanninn Martin Pusic fyrir fjórum dögum síðan. Pusic hefur spilað í Danmörku síðan 2013 og varð markakóngur deildarinnar með Esbjerg fyrir þremur árum.

Pusic kom inn á sem varamaður hjá Horsens þegar að liðið gerði sér lítið fyrir og lagði stórveldið FC Kaupmannahöfn á Parken í fyrstu umferðinni um helgina en hann vildi svo skyndilega komast burt.

„Ég hef verið í Danmörku í fimm ár og sé bara ekki fram á að geta spilað í þessu landi lengur. Ég vil spreyta mig utan Danmerkur,“ segir Pusic í frétt á vef Horsens, fjórum dögum eftir að skrifa undir samninginn.

Það var lítið mál fyrir Horsens að láta hann fara þar sem að Bo Henriksen hefur engan áhuga á að vera með leikmann í liðinu sem vill ekki vera í Horsens eða í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×