Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Stjarnan 2-3 | Hilmar Árni tryggði Stjörnusigur með glæsilegu marki

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Hilmar Árni fagnar öðru marka sinna
Hilmar Árni fagnar öðru marka sinna vísir/bára
FH tók á móti Stjörnunni í stórslag 11. umferðar pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 3-2, Stjörnunni í vil, í stórskemmtilegum leik sem hafði í raun allt. Nóg af mörkum, leiftrandi sóknarbolta og dramatík fyrir allan peninginn.

Stjarnan byrjaði leikinn af mikilli ákefð og pressaði leikmenn FH hátt uppi á vellinum. Fengu þeir fyrsta færi leiksins strax á 3. mínútu leiksins og var það ekki af verri endanum. Guðmundur Steinn, framherjinn stæðilegi, fékk glæsilega sendingu inn fyrir vörn FH frá Guðjóni Baldvinssyni, samherja sínum í sóknarlínu Stjörnunnar, en Gunnar Nielsen, markmaður FH, varði ágætt skot hans glæsilega með hægri fætinum.

Stjarnan jók sóknarþunga sinn eftir þetta en gekk þeim illa að binda hnútinn á nokkrar álitlegar sóknir. Varð það þeim að falli strax á 8. mínútu þegar að færeyingurinn knái á miðju FH, Brandur Olsen, kom heimamönnum yfir. Tók hann boltann á lofti á fjærstöng eftir góða fyrirgjöf Hjartar Loga af vinstri kantinum, óverjandi fyrir Harald Björnsson í marki Stjörnunnar.

Eftir markið kom kafli þar sem FH lék boltanum vel sín á milli, án þess að skapa sér þó opin færi, en leikmenn Stjörnunnar virtust að sama skapi vera hálf slegnir og ráðalausir. Það varði þó ekki lengi og tókst þeim, verðskuldað, að jafna metin á 38. mínútu leiksins. Brynjar Gauti reis þá manna hæst og stangaði þá boltann í netið eftir hornspyrnu Hilmars Árna.

Nokkrum mínútum síðar, eftir að liðin höfðu skipst á að sækja, flautaði Þorvaldur Árnason, dómari leiksins til hálfleiks. Staðan 1-1 þegar að liðin gengu til búningsherbergjanna eftir frábæran fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var vart hafinn þegar að FH tók forystuna eftir einkar klaufalegt sjálfsmark Daníel Laxdals. Reyndi hann að hreinsu í burtu fyrigjöf Viðars Ara en tókst ekki betur en svo að boltinn fór í hans eigið mark.

Líkt og Rúnar Páll, þjálfari Stjörnunnar, kom inná í viðtali í leikslok, eru hans leikmenn ekki þekktir fyrir það að leggja árar í bátana. Eftir um korters kafla þar sem að lítið gekk í sóknarleik þeirra tóku þeir öll völd í leiknum. Fengu þeir ótal færi en Gunnar Nielsen, markmaður FH, sá við þeim. Allt þar til á 65. mínútu þegar að hinn magnaði Hilmar Árni jafnaði metin með stórkostlegu marki, sláin inn, eftir glæsilegan undirbúning Guðjóns Baldvinssonar.

Eftir jöfnunarmark Hilmars leit allt út fyrir að liðin myndu skipta stiginu sín á milli. Hilmar Árni var þó ekki á því máli að fara einungis með eitt stig úr Kaplakrikanum og tryggði hann Stjörnunni dramatískan sigur á 88. mínútu. Aukaspyrna hans, sem er ein sú besta sem undirritaður hefur séð í sumar, fór í samskeytin, óverjandi fyrir Gunnar Nielsen, og Stjörnumenn fögnuðu eins og óðir væru. Var þetta jafnframt tólfta mark Hilmars í sumar í ellefu leikjum, mögnuð tölfræði fyrir miðjumann.

Dramatíkin var þó ekki búin. Nokkrum mínútum síðar fögnuðu leikmenn FH þegar þeir héldu að Þorvaldur væri að dæma víti, enda virtist sem svo að Robbie Crawford hafi verið sparkaður niður í teignum. Þorvaldur var hins vegar ekki á því að dæma víti og spjaldaði hann Crawford fyrir leikaraskap. Ákaflega umdeildur dómur. Leikmenn FH, sem og þjálfarar, létu öllum illum látum á hliðarlínunni og létu Þorvald heyra eftir leik hversu stór mistök hann hefði gert. Brandur Olsen, sem hafði verið tekinn útaf stuttu áður, hljóp meira að segja inn á völlinn til að segja Þorvaldi sína skoðun á þessu.

Stjörnumenn fögnuðu hins vegar með hinni mögnuðu stuðningsmannasveit þeirra, Silfurskeiðinni, sem sungu frá fyrstu mínútu og studdu sína menn. Sigrarnir verða ekki mikið sætari en þetta.

Af hverju vann Stjarnan?

Þrátt fyrir að nánast allir leikmenn Stjörnunnar hafi átt góðan leik í kvöld, þá verður að segjast að helsta ástæðan er að þeir eru með Hilmar Árna innanborðs. Stórkostlegur leikmaður sem getur gert gæfumuninn í svona jöfnum leikjum. Ekki nóg með að hann hafi skorað tvo frábær mörk, þá skapaði hann urmul færa og er óumdeilanlega heilinn í sóknarleik þeirra. Stjarnan sýndi einnig gríðarlegan karakter í kvöld. Lentu tvisvar undir en gáfust aldrei upp og sóttu af miklum krafti til lok leiksins.

Hverjir stóðu uppúr?

Líkt og gefur að skilja er ekki annað hægt en að tiltaka Hilmar Árna, sem var óumdeilanlega maður leiksins. Fjölmargir aðrir leikmenn Stjörnunnar voru þó flottir í kvöld. Þar má t.d. nefna Brynjar Gauta, sem kóronaði góðan leik sinn með laglegu skallamarki. Þá var Guðjón Baldvinsson sífellt ógnandi í framlínu Stjörnunnar, lagði upp mark fyrir Hilmar, og var augljóst að varnarmenn FH höfðu miklar áhyggjur af hraða hans.

Brandur Olsen skaraði fram úr í liði FH og sýndi í kvöld, enn og ný, af hverju hann er í í hópi bestu leikmanna deildarinnar. Stýrði hann spili sinna manna nánast óaðfinnanlega og skoraði auk þess glæsilegt mark.

Hvað gekk illa?

Það verður að segjast að dómara leiksins, Þorvaldur Árnason, átti ekki sitt besta kvöld. Gekk honum illa að hafa hemil á leikmönnum og þjálfurum í leikslok, auk þess sem ákvörðun hans að spjalda Robbie Crawford, í stað þess að dæma víti, verður að teljast vafasöm í besta falli.

Þá gekk vörn FH illa að eiga við hraðar skyndisóknir Stjörnunnar og verjast í föstum leikatriðum. Það hafa verið hræringar á vörninni þeirra og spurning hvort það hafi haft áhrif.

Hvað gerist næst?

FH tekur á móti Grindavík hér í Kaplakrika næstkomandi laugardag í hádegisleik og þurfa því stuðningsmenn þeirra að vakna snemma þá. Síðar þann dag halda Stjörnumenn til Keflavíkur þar sem þeir botnliði Keflavíkur.

vísir/bára
Rúnar Páll: Eins sætt og það verður

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, gat ekki verið annað en hæstánægður í leikslok. Lofaði hann sína leikmenn og þann fótbolta sem áhorfendur fengu að sjá í Kaplakrika í kvöld.

„Þetta var stórkostleg skemmtun, fyrir áhorfendur sem og okkur sjálfa. Þetta var leikur tveggja frábærra liða og ég gat ekki verið annað en hrikalega ánægður þegar ég sá Hilmar Árna setja hann inn úr aukaspyrnunni í lokin,” sagði Rúnar

Rúnar kippti sér ekki upp við þá hörku sem einkenndi lok leiksins og sagði þetta bara vera eðlilegt milli þessara liða.

„Er ekki bara eðilegt að það sé harka milli þessara liða. Það var harka allan leikinn og ekkert við því að segja. Þetta var kaflaskiptur leikur. Mér fannst við byrja betur þó að þeir hafi skorað fyrsta markið. Síðan komum við tilbaka eins og við gerum alltaf. FH-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn betur en við komust aftur inn í leikinn og heilt yfir vorum við stórhættulegir í flestum okkar aðgerðum. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum fannst mér við síðan taka völdin í leiknum og fengum við mörg frábær færi á þeim kafla. Sem betur fer kláruðum við þetta í lokin. Þetta er eins sætt og það verður.”

Rúnar var spurður út í atvikið umdeilda í lok leiksins þegar að FH heimtuðu víti.

„Það var alveg á grensunni. Ég bara hreinlega veit það ekki. Þetta gat alveg eins verið víti en sem betur fer dæmdi hann það ekki. Hefði hann gert það hefði Halli hvort eð er varið það.

Líkt og Rúnar nefndi var þetta eins sætt og það verður. Var þetta sætasti sigurinn í sumar?

„Ég á mörg góð kvöld en ég viðurkenni að þetta var extra sætt. Við ætluðum okkur alltaf að vinna þennan leik og með rétt hugarfar var það alltaf að fara að gerast. Næst sækjum við sigur í Keflavík.”

Leikmenn Stjörnunnar sóttu stíft frá fyrstu mínútu og pressuðu leikmenn FH hátt uppi á vellinum. Var það leikplanið sem Rúnar lagði upp með?

„Það var uppleggið allan tímann að mæta þeim hátt uppi. FH er frábært lið og þeir sýndu það í kvöld að þeir geta spilað flottan fótbolta. Þeir sköpuðu hins vegar ekki mörg færi á móti okkur, vörnin okkar var þétt í kvöld. Síðan gerist það í síðari hálfleik að Daníel Laxdal gerir hræðileg og sjaldséð mistök þegar hann skorar sjálfsmarkið. En við komum tilbaka og kláruðum þetta með stæl.“

vísir/bára
Ólafur Kristjánsson: Dómarinn var slakur

Svipbrigði Ólafs Kristjánssonar, þjálfara FH, var að vonum gjörólík kollega hans í Stjörnunni í leikslok, en Ólafur fór ekki leynt með það hversu pirraður hann var.

Var hann spurður hvað væri hægt að segja eftir svona grátlegt tap.

„Það er hægt að segja margt, t.d. að við komust tvisvar sinnum yfir í leiknum. Við spilum að mörgu leyti virkilega góðan leik. Við verjumst hins vegar ekki nógu vel, þar á meðal í hornspyrnum í fyrri hálfleik og í skyndisóknum sem við vitum að þeir eru hættulegir í. Svo gefum við þeim aukaspyrnu fyrir utan teig og erum þá komnir í erfiða stöðu, 3-2 undir þegar lítið er eftir. Það er verulega súrt. Við áttum kafla í seinni háfleik þar sem við erum með öll völd en við náum ekki að nýta okkur það til að skora þriðja markið.”

Það ætlaði allt um koll að keyra á bekk FH þegar að Þorvaldur Árnason, dómari leiksins, spjaldaði Robbie Crawford fyrir dýfu í staðinn fyrir að dæma víti, líkt og FH-ingar heimtuðu. Ólafur var spurður út í það atvik, var þetta víti?

„Ég er ekkert hissa á því að menn hafi verið æstir og reiðir og viljað fá víti. Ég held að stjörnumenn séu hæstánægðir með það að Þorvaldur, dómari leiksins, ákvað að sjá þetta öðruvísi en meginþorri þeirra sem voru að horfa á leikinn. Það þurfti ekkert endursýningu til að sjá að þetta væri víti. Það vantar bara skilning á leiknum. Robbie Crawford er sparkaður niður í teignum. Þorvaldur hins vegar túlkar þetta þannig að þetta hafi verið dýfa. Auðvitað erum við súrir yfir því. Við getum sjálfum okkur um kennt að hafa verið undir 3-2, en við vorum rændir möguleikanum á því að fá vítaspyrnu.

Þrátt fyrir þetta tók Ólafur ábyrgð á tapinu.

„Ég get hins vegar ekki breytt því sem dómarinn gerði, mér fannst hann slakur, ég verð að bera ábyrgð á því að FH sé ekki með fleiri stig og það er það sem ég verð að fókusera á eftir þennan leik.”

Úrslitin hafa ekki verið að falla fyrir FH í síðustu leikjum. Hefur Ólafur áhyggjur af gengi liðsins?

„Nei, alls ekki. Núna verðum við bara að sýna úr hverju við erum gerðir. Við erum ekki búnir að vera að vinna leiki. Við töpuðum fyrir Val í síðasta leik og erum að gera alltof mikið af jafnteflum. Það er okkar saga í sumar; við erum með yfirburði í leikjum en náum ekki að nýta þá til að taka stigin þrjú. Ég hef vissulega áhyggjur af því. Við þurfum að klemma rasskinnarnar okkar ærlega saman til að ná í fleiri stig.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira