Erlent

Joe Jackson er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Joe Jackson eignaðist alls ellefu börn.
Joe Jackson eignaðist alls ellefu börn. Vísir/Getty
Joe Jackson, faðir tónlistarmannanna Michael og Janet Jackson, er látinn, 89 ára að aldri. Hann var umboðsmaður barna sinna sem flest lögðu tónlistina fyrir sig.

Jackson andaðist snemma í morgun eftir að hafa verið fluttur á sjúkrahús um helgina. Hann glímdi við krabbamein í brisi.

Jackson gegndi mikilvægi lykilhlutverki þegar kom að tónlistarferli bræðranna í The Jackson 5, sem og sólóferli þeirra Michael og Janet Jackson.

Fimm synir Jackson – Jackie, Tito, Jermaine, Marlon og Michael – mynduðu sveitina Jackson 5 árið 1964, en yngri bróðir þeirra Randy bættist síðar meir af og til í hópinn.

Dætur Jackson, þær LaToya, Rebbie og Janet, áttu sömuleiðis farsæla sólóferla og gegndi Joe Jackson hlutverki umboðsmanns þeirra allra.

Í frétt BBC kemur fram að Jackson hafi átt stóran þátt í velgengni barna sinna á sviði tónlistar, en oft var rætt um að hann hafi reynst börnum sínum það strangur að það jaðraði við harðræði.

Jackson fæddist í Fountain Hill í Arkansas árið 1928 og var hann elstur fimm systkina. Á sínum yngri árum gerði hann sér vonir um að gerast hnefaleikamaður og spilaði gítar í blússveitinni Falcons.

Árið 1949 gekk hann að eiga Katherine Scruse og eignuðust þau alls tíu börn saman. Þá átti hann dóttur með Cheryl Terrell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×