Innlent

Segir sáttmála meirihlutaflokkanna hrákasmíð

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá Akureyri.
Frá Akureyri. VÍSIR/PJETUR
Minnihluti bæjarstjórnar Akureyrar lagði fram 50 spurningar til meirihlutaflokkanna á síðasta fundi bæjarstjórnarinnar. Telur minnihlutinn sáttmála meirihlutaflokkanna vera illa skrifaðan, óræðan og að þörf sé á nánari útskýringum á honum.

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir íbúa eiga að fá að vita hvert stefnan er sett næstu fjögur árin. „Það er ekki hægt að draga upp neina mynd af því sem meirihlutinn ætlar sér,“ segir Gunnar.

„Sáttmáli meirihlutans er þannig settur upp að íbúar geta ekki séð stefnuna. Þess vegna erum við að setja fram þessar spurningar. Íbúar bæjarins eiga að fá að vita hvert meirihlutinn er að fara. Annaðhvort er meirihlutinn enn ósammála um það eða að þau treysta sér ekki til að setja það niður á pappír.“



Gunnar Gíslason fræðslustjóri Akureyri
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins, kynnti málefnasamning L-lista, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar fyrir kjörtímabilið á fundinum. Fulltrúar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, minnihlutans í bæjarstjórn, bókuðu gegn sáttmálanum. Óskaði minnihlutinn eftir að spurningum hans yrði svarað og umræður teknar á næsta fundi bæjarstjórnar Akureyrar. 

„Sé ætlunin að komast í gegnum annað kjörtímabil án mikilla aðgerða er eðlilegt að horft sé framhjá þessari beiðni,“ stendur jafnframt í bókun minnihlutans.

Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-lista og forseti bæjarstjórnar, vísar gagnrýni Gunnars á bug. 

„Málefnasamningurinn sem meirihlutinn hefur sett fram er metnaðarfullur og lýsir framtíðarsýn okkar vel. Þetta er stefna en ekki starfsáætlun og nú þegar er hafin vinna við að útfæra stefnuna í samvinnu við starfsfólk. Við vísum því gagnrýni minnihlutans alfarið á bug,“ segir Halla Björk.

Minnihlutinn segir hins vegar í bókuninni að ekki sé hægt að ræða stefnuna út frá sáttmálanum. Hann sé fullkomlega óhæfur sem umræðugrundvöllur um stefnu og áherslur meirihlutans, eins og stendur í bókun minnihlutans. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×