Erlent

Ólga vegna atkvæðagreiðslu um að þingmenn fái lokaorðið um Brexit-samning

Kjartan Kjartansson skrifar
Forysta Íhaldsflokksins reynir nú að berja niður uppreisn hluta flokksins á þingi vegna Brexit.
Forysta Íhaldsflokksins reynir nú að berja niður uppreisn hluta flokksins á þingi vegna Brexit. Vísir/EPA
Neðri deild breska þingsins greiðir atkvæði um hvort þingmenn fái að ráða úrslitum samnings á milli ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandsins um útgöngu Breta í haust. Evrópumálaráðherra ríkisstjórnarinnar varar þingmenn Íhaldsflokksins við því að þeir gætu grafið undan samningsstöðu hennar með því að samþykkja tillöguna.

Átök hafa verið innan Íhaldsflokksins um Brexit. Phililip Lee, dómsmálaráðherra, sagði af sér í dag vegna stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Brexit. Lee hefur stutt áframhaldandi veru Breta í ESB. Sagðist hann telja stefnu ríkisstjórnarinnar skaða kjósendur sína.

Hópur þingmanna flokksins er talinn ætla að andæfa ríkisstjórninni með því að greiða atkvæði með breytingatillögu við frumvarp um útgönguna úr ESB í dag og á morgun. Hún gengur út á að gefa þingmönnum vald til að hafna samningi ríkisstjórnarinnar við sambandið ef þeim líkar ekki við hann.

Theresa May, forsætisráðherra, hefur sagt að slík tillaga sendi röng skilaboð til ráðamanna í Evrópu. David Davis, Evrópumálaráðherra ríkisstjórnar hennar, segir að þingið muni hafa aðkomu að útgönguferlinu en það geti ekki snúið við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2016.

Frumvarpið um útgönguna úr Brexit á að tryggja að hún gangi snurðulaust fyrir sig. Lög sem Bretar hafa tekið upp í gegnum ESB yrðu með því gerð að breskum lögum þannig að þingmenn og ríkisstjórnin geti síðar ákveðið að halda þeim eða breyta, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Íhaldsflokkurinn er ekki með hreinan meirihluta á þingi. Hann hefur þurft að reiða sig á stuðnings norður-írskra sambandssinna til að verja minnihlutastjórn sín falli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×