Viðskipti innlent

Hagnaður Iceland Travel dregst saman um 35%

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Félagið er í eigu Icelandair Group.
Félagið er í eigu Icelandair Group. Vísir/Pjetur
Hagnaður Iceland Travel, ferðaþjónustufyrirtækis í eigu Icelandair Group, dróst saman um 35 prósent og nam 335 þúsund evrum, jafnvirði 42 milljóna króna, á árinu 2017.

Félagið hyggst greiða jafnvirði 32 milljóna króna í arð. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) dróst saman um 46 prósent á milli ára.

EBITDA sem hlutfall af tekjum var 1,1 prósent í fyrra og lækkaði um 1,4 prósentustig á milli ára. Rekstrarkostnaður jókst um 29 prósent á milli ára. Kostnaðarverð seldra vara, sem er langumfangsmesti kostnaðarliðurinn, jókst í 80,8 prósent af tekjum úr 78,3 prósentum á milli ára. Tekjur félagsins jukust um 27 prósent á milli ára og voru 105 milljónir evra, jafnvirði 13 milljarða króna í fyrra.

Eiginfjárhlutfall Iceland Travel var níu prósent við árslok. Lágt eiginfjárhlutfall leiddi til þess að arðsemi eigin fjár var 28 prósent. Hefði eiginfjárhlutfallið verið 30 prósent, sem er algengt á meðal íslenskra fyrirtækja, væri arðsemi eigin fjár níu prósent.

Icelandair Group er stór viðskiptavinur Iceland Travel. Um 21 prósent tekna fyrirtækisins renna til félaga innan samstæðunnar eða jafnvirði 2,8 milljarða króna. Hlutfallið lækkaði um 3 prósentustig á milli ára, samkvæmt upplýsingum úr ársreikningi. Upplýst var í haust að ákveðið hafi verið að slíta sameiningaviðræðum Iceland Travel og Allrahanda.


Tengdar fréttir

Icelandair hefur söluferli á hótelrekstri

Samhliða ákvörðun um að setja Icelandair Hotels í söluferli hefur verið ákveðið að Iceland Travel og VITA verði hluti af kjarnastarfsemi Icelandair Group.

Segir óþarfa að fyllast skelfingu

Hrönn Greipsdóttir er framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Eldeyjar sem fjárfestir í ferðaþjónustu. Árið 2015 þegar fjárfestingafélaginu Eldey var hleypt af stokkunum lá fyrir að í nánustu framtíð yrði þörf á að þjappa afþreyingargeira ferðaþjónustunnar betur saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×