Menning

Þetta er mín gleðisprengja

Magnús Guðmundsson skrifar
Benedikt Erlingsson, leikstjóri
Benedikt Erlingsson, leikstjóri Mynd/Sigtryggur Ari
„Þetta er mín gleðisprengja,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri Kona fer í stríð sem sló í gegn á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hann segist vilja ná til áhorfandans með því að skemmta honum.

Þessi mynd er búin að vera með mér alla ævina. En hið eiginlega ferðalag tók eitthvað á fimmta ár,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Kona fer í stríð. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr í mánuðinum þar sem hún hlaut frábærar viðtökur og sérstök handritsverðlaun gagnrýnenda. Kona fer í stríð var svo frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum nýverið og hefur verið seld vítt og breitt um heiminn. Benedikt segir að hann hafi frumsýnt Hross í oss árið 2013 og því líði ein fimm ár á milli mynda. „Þetta er svona íslenskt tempó en ég vona að það verði örara næst, vegna þess að ef maður ætlar að ná góðum tökum á þessu þá þarf maður að gera myndir.“

Á móti er alltaf maskína

Kona fer í stríð segir frá konu á miðjum aldri sem ákveður að fara í stríð fyrir landið. Að gerast virk í baráttunni fyrir hreinleika landsins með því að vinna skemmdarverk á háspennulínunum sem liggja að álverinu í Straumsvík. Það er ekki að undra að Benedikt hafi haft á orði að þessi mynd hafi verið með honum alla ævi. Hann var róttækur ungur maður og verndun náttúru og lífríkis hefur alltaf staðið nærri hjartanu. Í hið minnsta allt frá því hann, ásamt fleiri ungmennum, hlekkjaði sig við hvalbát sem lá við bryggju. „Já, það er rétt. Þá var ég svona sautján, átján ára,“ segir Benedikt og brosir við tilhugsunina. „Við vorum líka virk í kringum kennaraverkföllin í gamla daga. Vorum með hústökur og setur til þess að vekja athygli á málstað sem við brunnum fyrir og gerum sum enn.“

Benedikt bendir þó á að þetta snúist ekki um hann persónulega en þegar náttúruvernd er annars vegar þá eigum við Íslendingar okkar fyrirmyndir í manneskjum á borð við Sigríði í Brattholti Tómasdóttur. „Mér finnst athyglisvert að oft hafa það verið einstaklingar sem hafa dregið vagninn og svo jafnvel brunnið upp á einhvern hátt í sinni baráttu. Ómar Ragnarsson, Björk Guðmundsdóttir, Herdís Þorvaldsdóttir, Andri Snær Magnason og núna eru Sigurður Gísli Pálmason og Tómas Guðbjartsson að taka slaginn. En á móti er alltaf maskína. Fólk sem er á launum hjá stofnunum og stórfyrirtækjum.“



Samfélagslegt leikhús

Benedikt segir að Halla, aðalpersóna myndarinnar sem er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur, sé kona sem hafi fengið nóg af hinum táknrænu mótmælum. „Hún lætur ekki duga að vinna kannski slaginn í fjölmiðlum í einn dag heldur vill búa til efnahagslega skrúfu,“ segir Benedikt hugsi og dokar við.

„En þetta er náttúrulega feel-good mynd,“ bætir hann við og hlær. Áréttar að það sé alls ekki ástæða til þess að ætla að myndin sé ekki létt og skemmtileg og það er svo sannarlega óhætt að taka undir að þetta er mynd sem fær alla fjölskylduna til að brosa.

Hins vegar er í henni ákveðin undiralda sem erfitt er að líta fram hjá og það felst alltaf eitthvað í því að vera virkur mótmælandi eins og þú varst á þínum yngri árum. Að segja stopp, hingað og ekki lengra.

„Jú, vissulega. Ég hafði áhuga á pólitík eins og ungt fólk hefur. Ég þefaði af pólitísku starfi en fannst það svo leiðinlegt. Það er svo leiðinlegt að sitja á fundum og mér fannst þetta allt snúast um stöðubardaga. En ég hafði líka áhuga á leikhúsi og aktívismi er leikhús. Hann er samfélagslegt leikhús. Götuleikhús. Eins og hann Haukur sem hífði Bónusfánann að húni á Alþingishúsinu. Það er aktívismi, leik- og táknræn athöfn og hún hefur rosalega mörg skilaboð í einfaldleika sínum.

Svo erum við með allt þetta leikhús í samfélaginu eins og á sviði stjórnmálanna, eins og kakan hans Bjarna Ben, Ómar borinn út úr Gálgahrauni og sprengjan í Laxárdal. Þetta eru allt leikrænar athafnir og ég ber virðingu fyrir svona samtali og finnst það skemmtilegt. Þetta er ástríðufullt lýðræðislegt samtal sem við eigum að faðma.“



Æskuheimilið hlerað

Benedikt er sonur hjónanna Brynju Benediktsdóttur leikstjóra og Erlings Gíslasonar leikara og því alinn upp á miklu leikhúsheimili. Foreldrar Benedikts eru nú bæði fallin frá, bæði voru þau þjóðþekktir listamenn en einnig kunn fyrir einarða afstöðu í stjórnmálum og sterka réttlætiskennd. Benedikt tekur undir það og bendir á að þar sem hann sé kaldastríðsbarn þá hafi tíðarandinn líka átt sinn þátt í að móta skoðanir hans og hugmyndaheim.

„Mitt æskuheimili á Laufásveginum var þjóðernismegin í þessu stríði, en hinum megin við götuna stendur ameríska sendiráðið. Þannig að það var Maó Tse-Tung og Víetnam sigrar uppi á veggjum heima hjá mér en handan götunnar blakti ameríski fáninn yfir vopnuðum vörðum. En mér er óhætt að játa það núna að ég átti leynisambönd við sendiherrafrúr, eins og hana Dorothy Irving sem ég kenndi íslensku, en pabbi mátti ekki vita það. Ég hélt þessu leyndu því ég vildi nú ekki valda usla á mínu heimili,“ segir Benedikt og hlær við minningunni. „Ég var svikari og gagnnjósnari sem var að kenna óvininum íslensku og þáði í staðinn heitt súkkulaði með rjóma. En svona var þetta á þessum árum. Það versta sem pabbi gat sagt um nokkurn mann var: Heimdellingur! Það var ekki hægt að sökkva neðar.“

Það er gaman að rifja upp þessa tíð sem átti sinn þátt í að móta Benedikt og ekki hægt að sleppa honum með að greina frá einni af lífseigustu sögunum frá þessum árum við Laufásveginn. „Já, ég veit hvaða sögu þú átt við og hún er sönn,“ segir Benedikt léttur. „Það var brotinn veggur heima og rafvirki tók allt rafmagn af húsinu en fékk svo samt straum. Hann mældi strauminn og komst að því að það væri amerísk spenna á einhverjum línum þarna. Hann spurði pabba hvort hann væri með ameríska rafstöð í húsinu, en pabbi lét sér hvergi bregða,“ segir Benedikt og setur smá leikræn tilþrif í að rifja upp þessi orð föður síns:

„Ef maður býr við hliðina á agressívu heimsveldi sem er í stríði í tveimur heimsálfum þá auðvitað hlerar það nágranna sína. Það er bara ekkert eðlilegra. Ertu barn?“ segir Benedikt og minnir verulega á föður sinn heitinn. „Það var því alltaf viðkvæðið á mínu heimili að við værum hleruð en mér fannst smá fyndið að ímynda mér aumingjans mennina sem þurftu að vinna við að þýða allt sem við sögðum yfir á ensku og gefa skýrslu. En eflaust hafði pabbi sitthvað til síns máls og að þar sem bæði Nixon og Reagan bjuggu þarna í heimsóknum sínum þá hafa þeir líklega haft einhvern takka til þess að geta skannað okkur aðeins.“

Mynd/Sigtryggur Ari

Blái volvóinn

Kona fer í stríð er fyrst og fremst skemmtileg mynd sem hverfist um spennandi sögu. En á sama tíma er hún hlaðin vísunum í íslenska og vestræna menningu án þess að það flækist fyrir frásögninni á nokkurn hátt. Benedikt segir ástæðu þess einfaldlega liggja í því hvaða tegund af sögumanni hann er. „Þetta er eitthvað sem við erum alltaf að reyna í leikhúsinu; að segja marga hluti á sama tíma. Maður elskar það sjálfur sem áhorfandi þegar maður uppgötvar eitthvað sem maður átti ekkert endilega að uppgötva. Tekur eftir einhverju og setur í samhengi án þess að því sé troðið upp á mann. Ég er fullur af nördaskap varðandi svona hluti og finnst gaman að vísa í menningarsögu eða eitthvað sem er persónulegt sem kannski einhver fattar en annar fattar ekki.

Þannig er ég til að mynda með persónulega hluti í þessari mynd á borð við bláa volvóinn, sem kemur talsvert við sögu, en fyrir mér er hann tákn um fullvalda og hlutlaust Ísland,“ segir Benedikt og hlær. „Ég veit ekki hvort það getur talist eitthvað algilt en hann hefur þessa merkingu fyrir mig. Þessi blái litur og þessi bíltegund hafa þetta táknræna gildi fyrir mér og þess vegna læt ég það eftir mér í myndinni. En það eru líka þarna vitnanir í Njálu og ýmislegt og vonandi hefur fólk gaman af því að grípa það á lofti.“

Benedikt segir að þetta sé í raun eitthvað sem myndrænir sögumenn geti leyft sér. „Að vera þrívíðir í frásögn. Þú ert með gulrótina sem er sagan og svo í leiðinni er hugsanlega hægt að gera myndina þrívíða með þessum leik. En kvikmyndin er form sem hefur þróast mikið í söguáttina, tekið þessa aristótelísku leið að þriggja þátta sögunni. Sumir hafa þó farið með hana í aðrar áttir eins og Tarkovsky sem fór með hana inn á svið draumsins og undirmeðvitundarinnar. Hann gat farið með fólk í ferðalag í kvikmyndahúsinu sem var nánast eins og það hefði dreymt draum og undirmeðvitund þess opnaði sig. Ég hef sótt í báðar smiðjur og sem kvikmyndagerðarmaður vil ég vera bæði sögumaður og ljóðskáld. Maður reynir að ríða tveimur hestum.“



Vitsmunalegt runk

Þessi leikur með tákn og vísanir er víða í Kona fer í stríð en eitt af því sem dillar hinum almenna og íslenska áhorfanda hvað mest er óvenjuleg og skemmtileg beiting á hlutverkaskipan. Það er engu spillt fyrir áhorfendum þó svo það sé haft á orði að það eru íslenskir grínleikarar sem fara með hlutverk valdsins í myndinni.

„Já, trúðarnir leika valdið. Þetta er lítill leikur sem ég get talað um við Íslendinga en auðvitað sáu menn þetta ekkert í Cannes. En svo halda kannski margir að það sé líka þannig með Fjallkonuna sem við höldum oft að sé séríslensk en við eigum hana ekkert ein. Það er til dæmis Britannica í Bretlandi og Helvetica í Sviss. Margar þjóðir eiga svona fjallkonur og minni um uppreisnaranda eða frelsisengil sem er oft tengdur fjöllum eða náttúru. En auðvitað fer sumt fyrir ofan garð og neðan. Þarna eru líka vísanir í gríska menningu, Artemis og Aþenu með hjálminn sem Íslendingar tengja kannski ekkert sérstaklega við og svo er ég stundum að leika mér við kvikmyndasöguna og svona get ég haldið áfram að opinbera allan nördaskapinn í mér,“ segir Benedikt og skellihlær.

„En aðalmálið er að þetta má ekki trufla söguna og ég held að það geri það ekki. Fyrir mér er ekki síður mikilvægt að þarna eru ákveðin þemu sem birtast ítrekað. Dæmi um slíkt er að Halla leitar aftur og aftur ásjár í faðmi móður jarðar. Öll element jarðar taka þessa konu í fangið og vernda hana þegar á þarf að halda. En þetta eru svona hlutir sem ég geri ekki síst mér til skemmtunar því ég veit að sagan er númer eitt. Stundum er það stóra fórnin í klippiherberginu, þar sem mig langar til þess að dvelja lengur og runka mér vitsmunalega á einhverri mynd, að þá kemur sögumaðurinn í mér og segir mér að halda áfram með söguna. Hætta þessu runki. Og oftar en ekki eru það mínir kæru samverkamenn og meðhöfundar sem hjálpa mér upp úr sjálfhverfunni.



Afsprengi mæðraveldis

Aðspurður um aðalpersónu myndarinnar og valið á Halldóru Geirharðsdóttur í aðalhlutverkið segir Benedikt að það hafi ekki á nokkurn hátt verið gefið. „Dóra er eldur og hefur alltaf verið. Hún var Dóra Wonder í okkar skóla og var strax einhvers konar kjarnorkuver. En ég fór reyndar í ferðalag með þessi hlutverk og Dóra endaði á því að þurfa að koma í prufu til mín eins og fleiri fínar leikkonur. Hún vann alveg fyrir þessu hlutverki og ég get ekki sagt að hún hafi fengið það út á einhvern klíkuskap þó svo við höfum leikið saman í Ormstungu í fjögur ár.

En auðvitað er Dóra ein af þessum kvenmyndum sem við hugsum til í samhengi við persónu eins og Höllu og við eigum nokkrar svona konur. Við eigum fullt af svona konum. Kannski eigum við ekkert nema svona konur? Ég átti móður sem var svona kona. Ég get líka nefnt ömmu mína hana Róshildi, sem var einn fyrsti jógakennarinn á Íslandi, Skaftfellingur og ofurkona.“

Varstu með þessar konur í huga þegar þú varst að skrifa og skapa þessa mynd?

„Já, þetta er bara kvenkynið í mínum huga. Ég er afsprengi mæðraveldis og tel að ég hafi upplifað það alveg jafn mikið og feðraveldið. Verið blessaður af því. Af ömmum mínum og frænkum. Þær voru góðar ömmusystur mínar margar; Sigríður, Gyðríður og Guðríður, Róshildur og Ingunn. Og að ógleymdri ömmu Óla Egils, sjálfri Herdísi Íslandssól.“

Mynd/Sigtryggur Ari

Við verðum að vakna

Kona fer í stríð fjallar um konu sem tekur mjög einarða afstöðu, ákveður að gera eitthvað þar sem við erum bókstaflega að drekkja jörðinni, en ert þú þarna Benedikt?

„Já, sko,“ segir Benedikt og hugsar sig vel um áður en hann svarar. „Ég vildi gera mynd sem gæti orðið gleðisprengja. Það er lykilatriði. Mig langaði til þess að gera það sem er kallað feel-good mynd en við eigum ekkert íslenskt orð yfir. Svona: Ef þú saknar sumarsins, farðu þá í bíó,“ segir Benedikt og það leynir sér ekki að það skiptir hann miklu máli að gleðja kvikmyndahúsagesti.

Hann hugsar sig um dálitla stund og segir svo aðspurður um umhverfismálin: „Ég er einn af mörgum sem eru orðnir ansi óttaslegnir. Þessi staða sem við erum að horfa á er heimsendastaða en það er ekki orðað. Við erum ekki nógu hrædd. Ég er undrandi á því af hverju ríkisvaldið er ekki farið að beita sér harðar. Parísarsamkomulagið næst vegna þessarar ógnar sem er hreinlega þannig að ef við förum í fjögurra gráðu hækkun þá þýðir það útdauða 90% lífmassans á jörðinni af því að þá sleppur metangasið út. Og við erum að stefna í fjórar gráður, ég meina, þetta er sviðsmyndin sem knýr þessar þjóðir til að samþykkja það að ætla að minnka framleiðslu. Minnka neyslu og þróa tækni til þess að soga út kolefnið,“ segir Benedikt og það leynir sér ekki á áherslunum að þetta er auðvitað hvergi nærri nóg. „Við erum komin á þann stað að þó við myndum stoppa allt í dag þá mundum við samt fara upp í eina komma fimm. Þannig að við erum á alveg ótrúlegum stað þar sem verkefnið er risavaxið.

Það er annar flötur á þessu sem mér finnst áhugaverður og það eru öll átökin um verndun eða nýtingu á hálendi Íslands. Stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Að sá, sem ætlar að berjast fyrir verndun ósnortins lands gegn raforkuvæðingu, þarf að taka afstöðu til þessara stóru hluta. Vegna þess að þetta eru nýju röksemdirnar: Við eigum að drekkja hálendinu og fórna Íslandi til þess að bjarga heiminum með grænu orkunni okkar.

En þá getum við sagt og verðum að segja. Hvaða heimi? Heimi neyslu og sóunar þar sem stórum hluta af allri álframleiðslu er hreinlega hent. En það gæti komið að því að við þurfum að gera þetta, fórna Íslandi og drekkja því sem eftir er með því að virkja allar jökul- og bergvatnsár landsins, en það er ekki komið þangað. Fyrst þurfum við að ráðast á þennan sóunarkúltúr. Hugsaðu þér bara allt þetta einnota dót sem er verið að búa til eins og Nespresso. Það er eitt gramm af áli sem fer í hvern kaffibolla. Við verðum öll að fara að vakna og átta okkur á stöðunni.“



Sögumannasykur

Benedikt er mikið niðri fyrir þegar umhverfismál eru annars vegar og í Kona fer í stríð eru þau undiralda sem streyma í gegnum allt verkið. Fyrir vikið er forvitnilegt hversu mikla áherslu Benedikt leggur á að skapa létta og skemmtilega kvikmynd. Hann segir að ef hann ætti að tengja þessa nálgun við einhvern stíl þá sé það hinn munnlegi arfur. „Hvernig segir þú sögu? Ef þú ætlar að skemmta félögum þínum á bar þá þarftu að halda athygli þeirra. Þú þarft að nota öll trixin í bókinni.

Jafnvel þegar það kemur eitthvað sorglegt og niðurlægjandi fyrir okkur þá er er alltaf kominn einhvern neisti af brosi þegar við segjum frá því. Þannig er minn stíll og það er held ég íslenskur stíll. Þetta snýst um ákveðið sjónarhorn og það er jafnvel bara til þess að halda mér við efnið. Því ég er orðinn svona ADHD áhorfandi. Ég geng út af leiksýningum, hætti að horfa á bíómyndir eftir hálftíma og gefst mjög fljótlega upp. Ég þarf áreiti og sykur. Sögumannasykur. Eitthvað sem heldur mér áhugasömum.“

Benedikt setur þetta í samhengi við eigin kvikmynd og bætir við að það sé búið að gera svo mikið af dystópíum og reiðum myndum. „Þetta er svona eins og þegar leikstjórinn er að reyna að hrista áhorfanda í leikhúsinu og garga á hann: Helvítis borgarinn þinn! Gerðu eitthvað!“ segir Benni og glottir. „En ég vil frekar ná til áhorfandans með því að skemmta honum og halda athyglinni þannig.

Þetta er arfurinn sem við Íslendingar búum við. Sjáðu valdamesta mann síðustu aldar, Halldór Laxness, sem deilir þeim titli í minni bók með Þórbergi Þórðarsyni, hann skrifaði harmrænar sögur. Sögur um eymd og niðurlægingu en það er samt í þeim fegurð og reisn. Þetta eru sögur sem skilja mann eftir uppljómaðan og það væri nánast hægt að kalla þær feel-good frásögn. Og jafnvel Hómer í öllum sínum ofbeldislýsingum í Iliötu, þar er einhver heiðríkja og fegurð – eitthvert ljós sem dregur okkur inn. Það er eitthvað í þessu ljósi sem heldur okkur föngnum og kveikir eitthvað innra með okkur.“


Tengdar fréttir

Líður þegar eins og sigurvegara

Kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, hefur fengið geggjaðar móttökur á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Leikstjórinn segir að sér líði þegar eins og sigurvegara.

Rambó skellir sér í skautbúning

Sjáið þessa mynd, látið heillast og fellið nokkur tár. Ef Kona sem fer í stríð hreyfir ekki við ykkur mæli ég með að þið pantið tíma hjá Lækna-Tómasi og biðjið hann um að finna í ykkur hjartað.

Kona fer í stríð til styrktar náttúruverndarsamtökum

Leikstjóri myndarinnar Kona fer í stríð segir að flestir náttúruverndarsinnar geti sett sig í spor aðalsöguhetjunnar. Gríðarleg eftirspurn sé eftir kvikmyndinni um allan heim. Í kvöld verður haldin sérstök styrktarsýning í Háskólabíó og rennur ágóði hennar til náttúruverndarsamtakanna Rjúkandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×