Lífið

JóiPé og Króli „handteknir“ á Blönduósi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
JóiPé og Króli hitta hér Emmsjé Gauta eftir að löggan var búin að stoppa þá.
JóiPé og Króli hitta hér Emmsjé Gauta eftir að löggan var búin að stoppa þá.
Rapparinn Emmsjé Gauti heldur áfram hringferð sinni um landið þar sem hann spilar 13 tónleika á 13 dögum. Samhliða því koma út daglegir netþættir frá túrnum en neðst í fréttinni má sjá áttunda þáttinn.

Í gærkvöldi var komið að tónleikum á Blönduósi en þar komu þeir JóiPé og Króli fram með Gauta, þrátt fyrir að hann hefði „handtekið“ þá fyrr um daginn.

„Allir bæir eru þekktir fyrir eitthvað eitt og það sem Blönduós er lang þekktastur fyrir er lögreglan á svæðinu. Svo það var ekkert annað í stöðunni en að kíkja á strákana á stöðinni. Höskuldur varðstjóri dressaði mig upp í búning og sendi mig út á þjóðveg eitt. Það var gaman að fá að fylgjast með þeim og taka þátt í alvöru steak out-i. Það var síðan heiður að fá að taka þátt í líklegast fyrstu og síðustu handtöku á JóaPé og Króla,“ segir Gauti sem var búinn að vera í sambandi við Henný sem var að skutla JóaPé og Króla norður.

„Hún vissi að við ætluðum að láta stoppa bílinn. En þrátt fyrir það fór hún í kerfi þegar hún var stoppuð og Höskuldur varðstjóri fór að spyrja hvort hún væri undir áhrifum. Ef öll Blönduósarlöggan er eins og þeir Höskuldur og Svanur sem við tókum vaktina með, þá hefur einhver verið að ljúga að mér í öll þessi ár að löggan á Blönduósi sé eitthvað rugluð. Þeir voru þvílíkt hressir og liðlegir,“ segir Gauti.

Hann segir giggið um kvöldið í félagsheimilinu á Blönduósi síðan hafa verið frábært.

„Ég hef aldrei spilað hérna áður og húsið er ógeðslega skemmtilegt. Við ætluðum síðan að tjalda á tjaldsvæðinu um kvöldið en Björn Valur neitaði að sofa utandyra svo við enduðum á að tjalda á sviðinu á sýningarsal félagsheimilisinsi. Það gaf okkur smá svona tilfinningu eins og við værum allavega smá útivistartýpur.“

Gauti segir að mestu vonbrigði dagsins hafi verið þau að hann þurfti að skila lögregluskyrtunni eftir tökur.

„Ég var farinn að kunna vel við mig í henni. Ef einhverju lögregluumdæmi vantar mann í afleysingar þá er ég klár. Ég get bara alls ekki lofað því að ég muni festast á einhverju power trippi.Næst eru það æskuslóðir Úlfur Úlfur, Sauðárkrókur, þar sem þeir ætla að vera með okkur um kvöldið. Hlökkum til að sjá alla þar og við lofum rugluðu kvöldi. Keli kemur endurnærður og úthvíldur úr grínpásunni sinni,“ segir Gauti en tónleikarnir á Sauðárkróki eru í kvöld.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×