Stundin var tilfinningaþrungin fyrir marga leikmenn liðsins eins og Rússann Alexander Ovechkin sem hefur verið einn allra besti leikmaður heims um langt skeið en aldrei áður fengið tækifæri til að vinna þennan eftirsóttasta bikar íþróttarinnar.
Tilfinningarnar báru þó T.J. Oshie, vængmann Washington, ofurliði eftir leik í viðtali en Oshie beygði af er hann fór að tala um fjölskyldu sína og þá allra helst föður sinn sem glímir við hinn hræðilega sjúkdóm Alzheimers.
„Þetta er fyrir fjölskylduna mína. Þetta er fyrir dætur mínar tvær. Ég er kominn með nafnið mitt á eitthvað þannig að þær vita í framtíðinni að pabbi þeirra spilaði íshokkí,“ sagði Oshie í viðtali við ESPN eftir leikinn í nótt.
„Þetta er fyrir pabba minn sem er með Alzheimers. Minnið er að hverfa frá honum en þetta er minning sem ég held að hann muni aldrei gleyma,“ sagði T.J. Oshie.