Lífið

Húsráðendur bjóða í partí

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Ásrún Emma og Alexander Roberts við Asparfell. Fréttablaðið/Ernir
Ásrún Emma og Alexander Roberts við Asparfell. Fréttablaðið/Ernir
Í íbúðum blokkarinnar í Asparfelli 2-12 býr mikill fjöldi fólks á öllum aldri, af mismunandi uppruna og kyni. Fjölskyldur jafnt sem einstaklingar, vinir og jafnvel vinnufélagar. Þau Alexander Roberts og Ásrún Magnúsdóttir stýra einum áhugaverðasta viðburði Listahátíðar í Reykjavík í ár og efna til blokkar­partís í samráði við nokkra húsráðendur í blokkinni sem ætla að opna heimili sitt fyrir gestum.

„Við höfum verið að vinna að þessu verkefni í nokkra mánuði,“ segir Alexander.

„Ferlið er frekar viðkvæmt, enda er ekki gefið að fólk vilji taka þátt og bjóða ókunnugum heim til sín,“ útskýrir Ásrún.

„Við bönkuðum á hverja einustu hurð í öllum blokkunum og útskýrðum hugmyndina fyrir íbúum. Auðvitað voru ekki allir heima. En mér fannst þetta gefandi, að fá ræða við íbúa. Af hverju við viljum vinna verkefnið. Hvert markmiðið er,“ segir Alexander.

Hvert er markmiðið?

„Markmiðið er að færa fólk saman,“ segir Ásrún sem segir þau hafa verið einlæg við íbúana. „Við útskýrum bara hugmyndir okkar og það að við viljum koma til móts við íbúa. Verkefnið er ekki eftir okkar forskrift. Það verða ekki brjáluð danspartí hjá öllum íbúum. Þetta er alls konar,“ segir hún.





María Gunnlaugsdóttir með plötur með tónlist sem er í uppáhaldi hjá henni.Vísir/Eyþór
„Einn þátttakenda ætlar til dæmis að hlusta í rólegheitum á Leonard Cohen og segja fólki frá því hvers vegna hann er í uppáhaldi,“ segir Alexander.

Dyraverðir munu leiðbeina gestum við inngang hvers stigagangs. Þá þarf fólk að skrá sig til þátttöku á heimasíðu Listahátíðar. „Það er hluti af verkinu að setja gesti í þær stellingar að bera ríka virðingu fyrir fólkinu sem það er að heimsækja. Þetta snýst fyrst og fremst um kærleika og traust,“ segir Ásrún.

María Gunnlaugsdóttir, íbúi í Asparfelli 8, er ein þeirra sem taka þátt. Hún ætlar að halda hlustunarpartí fyrir gesti sem sækja hana heim. „Fyrst þegar ég var beðin um að taka þátt sagði ég nei og óskaði þeim bara góðs gengis. Flott hugmynd, hugsaði ég samt, og þetta var að naga mig,“ segir María sem langaði til að leggja eitthvað af mörkum. 

„Ég leiddi hugann að tónlistinni. Sem hefur bjargað sálarheill minni og margra annarra. Ég hlusta mikið á klassíska tónlist og ákvað á endanum að halda svolítið hlustunarpartí. 

Ég ætla að spila tónlist og ræða um minningar og viðburði sem tengjast henni í mínu lífi. Þetta eru hversdagslegar minningar og skrýtnar. Ekkert glamúrus og tengjast ekki Reykjavík. Ég er alin upp úti á landi. Ég er ekkert að velta því fyrir mér hvort tónlistin sem ég hlusta á þyki fín. Ég vel tónlistina algjörlega út frá eigin duttlungum og minningum,“ segir María sem segist hafa ákveðið að slá til eftir töluverðar vangaveltur.



Sigurður yngri og Sigurður eldri bjóða upp í dans.Vísir/Eyþór
„Listahátíð er fjarri okkur. Við heyrum um hana í útvarpinu, lesum um hana í blöðunum. Ég vildi tengja okkur við hátíðina sem búum hér. Við njótum öll lista og menningar. Og menningin, hún er líka hér,“ segir María.

„Samfélagið hér í blokkinni er mjög fjölbreytt. Það er alls kyns fólk í öllum blokkunum hér í kring. Ég finn til dæmis alls konar matarilm um kvöldmatarleytið. Kannski eitthvað sem minnir á skötu, asískan ilm, mexíkóskan og afrískan. Allt blandast saman,“ segir hún og hlær.

Feðgarnir Sigurður Sigurðsson og Sigurður Þór Sigurðsson ætla að bjóða upp á dans.

„Ég ætla að dansa samkvæmisdansa fyrir þá gesti sem koma hingað,“ segir Sigurður yngri sem er atvinnudansari. Faðir hans kann taktana líka en segist ætla að vera í hlutverki gestgjafa og spjalla við gestina. „Ég ætla bara að vera á kantinum. Ég kann alveg að dansa líka, ég kenndi honum allt sem hann kann!“ segir hann og skellir upp úr.

Sigurður yngri bregður svip. „Svo segir hann. Ég man nú ekkert eftir því!“

„Þetta var í hálfgerðum vitleysisgangi sem við ákváðum að taka þátt, þetta er svolítið að hellast yfir mig í dag,“ segir Sigurður eldri í léttum dúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×