Skoðun

Framtíðin felst í menntun – líka í tónlistarleikhúsi

Gunnar Guðbjörnsson skrifar
Uppgangur tónlistarleikhúss á Íslandi síðustu ár ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum.

Óperur hafa vissulega verið misjafnlega vinsælar síðustu ár en þegar best tekst til er þjóðin sólgin í þær. Í því sambandi má nefna sýningar á borð við Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson fyrir um fjórum árum. Þó að algengara sé að óperur íslenskra tónskálda séu frumfluttar í útlöndum rata þær stundum hingað á klakann, landanum til ómældrar gleði.

Stóru leikhúsin keppast um að setja upp glæsilegar söngleikjasýningar og virðist eftirspurn oftast vera meiri en framboð. Á söngleikjasýningum grunnskóla og framhaldsskóla er meira að segja fullt út úr dyrum. Sjálfstæðir leikhópar láta ekki sitt eftir liggja og ráðast í uppsetningar á söngleikjum og barnasýningum þar sem söngur og tónlist er í aðalhlutverki. Ætti öllum að vera í fersku minni sú mikla athygli sem stórsýning TMB viðburða á söngleiknum Phantom of the Opera í Hörpu hlaut.

Sjálfur gleðst ég mjög yfir gróskunni enda stýri ég skóla sem hefur á síðustu árum m.a. lagt áherslu á samruna listgreinanna leiklistar og tónlistar. Í haust var stofnaður kór á vegum skólans með nemendum einsöngsdeildar og söngleikjadeildar til að syngja í Phantom of the Opera. Fengu nemendurnir ómetanlega reynslu með þátttöku í þessu metnaðarfulla verkefni. Nemendurnir komu á óvart en þó ber að hafa í huga að stór hluti af starfi SSD hverfist um að setja upp sýningar á óperum og söngleikjum. Það væri ósk okkar að skólanum yrði gert kleift að auka leiklistarkennslu til að ná betra jafnvægi í kennslu og auka þar með leikni nemenda í leiklistarhlutanum.

Stefnan er að bjóða nemendum undirbúning fyrir atvinnumennsku á leiksviði og til þess þarf að forgangsraða rétt í skólastarfinu. Breytingar í heimi tónlistarleikhúss á síðustu áratugum valda því að auknar kröfur eru gerðar um leiklistarkennslu. Bregðast háskólar víða í Evrópu við í takt við þessar kröfur og við verðum einnig að gera það hér á landi. Á Íslandi er hægt að undirbúa nemendur fyrir nám í erlendum háskólum enn betur.

Á dögunum heimsótti ég konunglega konservatoríumið í Antwerpen þar sem fimm útskrifaðir nemendur úr SSD stunda nú nám. Árangur þeirra er góður því þau gegndu öll veigamiklum hlutverkum í uppfærslu skólans á Töfraflautu Mozarts. Þessir nemendur voru vel undirbúnir en hefðu getað verið enn betur í stakk búnir til að takast á við námið ytra og það sem því fylgir.

Væntanlega þurfum við ekki að efast um mikilvægi fjölbreytileika í íslenskri menningu. Um áhuga Íslendinga fyrir tónlistarleikhúsi þarf ekki að fjölyrða og augljóst er að hér á landi er hæfileikafólk hvert sem litið er. Við eigum alþjóðlega listamenn sem gera garðinn frægan allt árið um kring en til þess að við getum áfram verið í fremstu röð þurfum við sem menntum fólk fyrir framtíðina skilning stjórnvalda og aukið svigrúm fyrir menntun sem er í takt við nútímann.

Höfundur er skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz




Skoðun

Sjá meira


×