Fótbolti

Vonast til að Salah nái HM

Einar Sigurvinsson skrifar
Salah gengur af velli með vinstri hendi í fatla í leiknum í gær.
Salah gengur af velli með vinstri hendi í fatla í leiknum í gær. getty
Meiðsli Mohamed Salah er ekki eins slæm og í fyrstu var talið og vonast Egypska knattspyrnusambandið til þess að hann geti spilað fyrir landið á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Þetta kemur fram á Twitter síðu Egypska knattspyrnusambandsins, en þar segir að eftir röntgenmyndatöku hafi ekki komið í ljós meiðsli á vöðva. Líkurnar á því að Salah geti spilað á HM séu því betri en í fyrstu var talið.

Salah þurfti að yfirgefa völlinn eftir hálftíma leik, þegar Liverpool mætti Real Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

„Sennilega missti Egyptaland mjög mikilvægan leikmann fyrir HM. Ég vona að það fari ekki svo og ég veit það ekki fyrir víst. En miðað við það sem læknateymið sagði lítur þetta ekki vel út eins og staðan er núna,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í leikslok í gær.

Fyrsti leikur Egyptalands á HM er 15. júní gegn Úrúgvæ, en auk þeirra eru Egyptar með Rússlandi og Sádí-Arabíu í A-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×