Innlent

Forsetahjónin í opinberri heimsókn í Finnlandi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
„Það var í raun og veru fátt til að ræða um,“ sagði Sauli Niniisto, forseti Finnlands, í upphafi blaðamannafundar í finnsku forsetahöllinni í morgun. „Á svona fundum er vanalega rætt það sem skortir í sambandi ríkja en á milli Íslands og Finnlands er ekkert slíkt. Sambandið skortir ekkert.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú eru stödd í opinberri heimsókn í Finnlandi sem hófst í morgun og stendur til fimmtudags. 

Niniisto sagði það ávallt gaman að fá svo góða vini í heimsókn til Finnlands en þetta er í þriðja sinn sem Guðni sækir Finnland heim í embættistíð sinni.

„Þegar við erum í Finnlandi er ávallt tekið hlýlega á móti okkur,“ sagði Guðni og vék fljótlega að efni fundarins sem forsetarnir áttu í morgun. Fjölluðu þeir um mörg þeirra sameiginlegu mála sem ríkin glíma við á borð við málefni Norðurslóða, umhverfis- og auðlindamál auk málefna hafsins.

Jan Vapaavuori borgarstjóri Helsinki bauð þá forsetahjónunum og fylgdarliði til hádegisverðar í ráðhúsi borgarinnar og átti Guðni einnig fund með Paula Risikko forseta þjóðþingsins og Juha Sipilä forsætisráðherra Finnlands. Forseti lagði síðan blómsveiga að minnisvarða um fallnar finnskar hetjur og grafhýsi Gustafs Mannerheims hershöfðingja og fyrrum forseta Finnlands.

Deginum lauk með hátíðarkvöldverði sem finnsku forsetahjónin buðu til í forsetahöllinni.

Í fylgdarliði forsetahjónanna eru fulltrúar fyrirtækja og annarra stofnana sem munu næstu daga kynna sér atvinnu- og menningarlíf í Finnlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×