Skoðun

Þéttari borg

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Spurn eftir litlum íbúðum miðsvæðis í Reykjavík hefur farið hratt vaxandi og er langtum meiri en framboðið eins og birst hefur í síhækkandi íbúðaverði á undanförnum árum. Allt bendir til þess að svo verði áfram raunin, enda vill hátt í níutíu prósent ungs fólks búa í póstnúmerum 101, 105 eða 107, ef marka má kannanir, og hægt hefur gengið að auka þar framboð íbúða.

Með því að halda áfram að þenja borgina út og byggja enn eitt úthverfið austan við núverandi byggð eru reykvískir stjórnmálamenn ekki að mæta þessari miklu eftirspurn. Það vantar ekki fleiri sérbýli austast í Reykjavík, eins og stundum mætti halda af umræðunni, heldur litlar og hagkvæmar íbúðir miðsvæðis. Fasteignasalar lýsa því svo að slegist sé um góðar eignir á miðlægum svæðum, einkum í miðborginni og Vesturbænum. Með því að þétta byggðina eru stjórnmálamenn að koma til móts við óskir markaðarins.

Þrátt fyrir góðvilja hefur borgaryfirvöldum ekki tekist að mæta þessum óskum og tryggja að miðsvæði borgarinnar vaxi eins og kallað er eftir. Litlum íbúðum þar hefur ekki fjölgað í takt við eftirspurn.

Reykjavík fór ekki úr því að vera þröngbýlasta borg Norðurlanda í það að vera sú dreifbýlasta af sjálfu sér. Það var pólitísk ákvörðun að skipuleggja borgina með þarfir einkabílsins í huga og gera borgarbúa þannig háða bílnum. Á sama hátt þarf pólitískan kjark til þess að snúa af þeirri leið og skipuleggja þéttari borg með sjálfbærum hverfum.

Gangi spár eftir mun Reykvíkingum fjölga um 25 þúsund á næstu 20 árum. Hvar á allt þetta fólk að búa? Þeirri spurningu þurfa reykvískir stjórnmálamenn að svara.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×