Innlent

Tveimur mönnum bjargað áður en trilla sökk í Skagafirði

Kjartan Kjartansson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Myndin er úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Myndin er úr safni. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Þyrla Landhelgisgæslunnar og öll tiltæki björgunarskip voru kölluð til vegna trillu sem var í vanda stödd nærri Reykjadisk í Skagafirði nú í kvöld. Tveimur mönnum var bjargað úr sjónum en bátnum sökk.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst útkallið kl. 20:39 í kvöld. Báturinn hafi fengið á sig ólag, snúist á hliðina og sokkið á endanum. Mennirnir eru sagðir við góða heilsu. Ágætt veður er sagt vera á svæðinu en nokkur alda.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að TF-GNÁ hafi verið kölluð út þegar í stað þegar útkallið barst. Farþegabáturinn Súlan var sömuleiðis sendur á staðinn frá Hofsósi ásamt björgunarsveitarmönnum. Mönnunum tveimur var svo bjargað um borð í björgunarbát heilum á húfi um klukkan hálf tíu.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að um þrjátíu björgunarsveitarmenn hafi farið af stað í útkallið, þar á meðal á björgunarskipum frá Skagaströnd og Siglufirði. Það hafi verið björgunarbátur frá Sauðárkróki sem hafi bjargað mönnunum tveimur sem voru þá komnir í sjóinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×