Fjöldi brasilískra fimleikastjarna hefur sakað fyrrum landsliðsþjálfara Brasilíu, Fernando de Carvalho Lopes, um að misnota þá kynferðislega.
BBC greinir frá því að fimleikafólkið hafi greint frá því í sjónvarpsviðtali við TV Globo í heimalandinu að þjálfarinn hafi misnotað það, allt frá óviðeigandi snertingum í það að horfa á þau í sturtu.
Þjálfarinn var leystur störfum frá brasilíska sambandinu fyrir Ólympíuleikana í heimalandinu árið 2016 eftir kvartanir frá foreldrum iðkenda. Í gær var hann svo rekinn frá félaginu sem hann hafði þjálfað í nærri tvo áratugi í Sao Paulo.
Í viðtali við brasilíska fjölmiðla sagði Lopes að hann væri með hreina samvisku og hefði aldrei misnotað neinn.
Einn fimleikamaður kom fram undir nafni í umfjöllun TV Globo, hinn 26 ára Petrix Barbosa.
„Oftar en einu sinni vaknaði ég við það að hann var með höndina inn á buxunum mínum. Hann spurði okkur alltaf hvernig við værum að þroskast og bað um að sjá kynfærin til þess að geta aðlagað þjálfunina að því.“
Alls var talað við 42 fimleikamenn sem sögðust hafa orðið fyrir misnotkun frá Lopes.
Ásakanirnar eru undir skoðun dómsyfirvalda í Brasilíu.